Jóhann Einarsson bestur hjá U-liðinu

Jóhann og Einar með verðlaun sín
Jóhann og Einar með verðlaun sín

Það má með sanni segja að nýliðinn handboltavetur hafi verið ansi farsæll hjá KA þar sem bæði KA og KA/Þór héldu sæti sínu í deild þeirra bestu og gott betur en það. Að auki vann ungmennalið KA sigur í 2. deild karla og strákarnir munu því leika í Grill-66 deildinni á næsta vetri.

Lokahóf ungmennaliðsins fór fram um helgina og þar var Jóhann Einarsson valinn besti leikmaður liðsins og Einar Birgir Stefánsson bjartasta vonin.

Jóhann stýrði sóknarleik KA U með mikilli prýði í vetur og var markahæsti leikmaður liðsins með 90 mörk í 14 leikjum. Með góðri frammistöðu með ungmennaliðinu tryggði hann sér stærra hlutverk í aðalliði KA þar sem hann gerði 13 mörk.

Einar Birgir fór mikinn á línunni sem og í vörn og sýndi miklar framfarir í vetur. Einar var í hóp hjá aðalliði KA í öllum leikjum vetrarins og var maður leiksins er KA lagði ÍBV á útivelli í vetur. Það er klárt að ef hann heldur áfram að leggja hart að sér þá getur hann náð ansi langt í handboltanum.

Við óskum strákunum til hamingju með verðlaunin og liðinu öllu til hamingju með frábæran árangur í vetur og verður gaman að sjá hvernig liðinu mun ganga í næst efstu deild á komandi vetri.