Jafntefli hjá 3. flokk kvenna

3. flokkur kvenna spilaði sinn 2. leik á Íslandsmótinu nú í dag. Um síðustu helgi töpuðu þær illa gegn Fylki og voru þær staðráðnar að sýna sitt rétta andlit í dag.

Leikurinn byrjaði heldur illa, Fram náði fljótt fjögurra marka forustu og um miðjan síðari hálfleik var staðan 3-7 fyrir Fram. Þá var eins og það hefði kviknað á stelpunum, vörnin varð gríðarlega sterk, mikil stemming kom í liðið og Kolbrún Helga í miklu stuði fyrir aftan. Sóknarlega voru þær þó ekki að gera neinar rósir en með gríðarlega sterkri vörn og markvörslu náðu þær að vinna sig inn í leikinn aftur og skoraði Fram einungis eitt mark á 15 mínútum. Staðan í hálfleik 7-9 fyrir Fram.
Seinni hálfleikur spilaðist nokkuð svipað og sá fyrri hafði endað. Vörnin hjá KA/Þór virkilega góð og stemmingin til fyrirmyndar. Það sem fór framhjá vörninni var Kolbrún tilbúin að hirða. Smátt og smátt komust KA stúlkur yfir og þegar fimm mínútur voru eftir var staðan 14-12 fyrir KA/Þór. Þá kom smá kæruleysi í sóknina og vörnin datt aðeins niður og staðan allt í einu orðin 15-14 fyrir Fram og aðeins mínúta eftir. Þá tók Steinþóra sig til og skoraði laglegt mark úr skyttunni og jafnaði. Fram fór í sókn, fékk vítakast þegar tíminn rann út en Kolbrún Helga kórónaði leik sinn með því að verja það víti og jafntefli niðurstaðan.

Sóknarlega voru stelpurnar ekki á fullum snúning en svona snemma móts er það ekki til að hafa áhyggjur af. Þær náðu oft á tíðum að spila sig vel í gegn en illa gekk að koma boltanum inn í markið. Stangirnar voru allar út klístraðar eftir boltann sem oftar en ekki ákvað að hafa viðkomu þar áður en hann spýttist eitthvert út í buskann.

Varnarlega spiluðu stelpurnar frábæran leik. Hver ein og einasta barðist eins og hundur og allar voru miklu meira en tilbúnar að berjast.