Eftir góða ferð Akureyrarliðsins á Selfoss um síðustu helgi tekur heldur betur alvaran við á miðvikudaginn þegar Íslandsmeistarar Hauka mæta norður yfir heiðar. Liðin mættust síðast hér fyrir norðan í vor í átta liða úrslitum. Margir töldu nánast formsatriði fyrir Hauka að klára þann leik en annað kom á daginn. Akureyrarliðið náði fram sínum albesta leik og vann magnaðan fjögurra marka sigur.
Það var ekkert gefið eftir og menn börðust fyrir sínu
Nú er bara að kalla fram sömu geðveikina og trú á verkefnið og þá þarf ekki að efast um að það verður fjör á vellinum.
Staða liðanna í deildinni er athygliverð, eftir fimm umferðir hafa bæði lið unnið einn leik og í báðum tilfellum kom sigurinn gegn heimamönnum á Selfossi, þriggja marka sigur í báðum tilfellum.
Haukar unnu úrslitaeinvígið í vor gegn Aftureldingu og má segja að þeir haldi nánast öllum sínum mannskap frá því í vor. Varnarjaxlinn Matthías Árni Ingimarsson lagði raunar skóna á hilluna og Leonharð Þorgeir Harðarson gekk til liðs við Gróttu.
Á hinn bóginn fengu Haukarnir mikinn liðsstyrk, þeir endurheimtu landsliðsmanninn Guðmund Árna Ólafsson úr atvinnumennsku auk þess sem Þórður Rafn Guðmundsson sneri heim úr atvinnumennsku. Þá kom Andri Heimir Friðriksson til liðs við Hauka frá ÍBV. Þannig að leikmannahópur Hauka virðist vera enn þéttari og breiðari en á síðasta tímabili. Þjálfari Hauka er líkt og í fyrra Gunnar Magnússon.
Gunnari Magnússyni var ekki skemmt í síðustu heimsókn sinni norður
Í markaskorun Hauka skera þrír leikmenn sig nokkuð úr, Adam Haukur Baumruk með 32, Guðmundur Árni Ólafsson 31 og Janus Daði Smárason með 30. Þar á eftir kemur línumaðurinn Jón Þorbjörn Jóhannsson með 18 mörk og aðrir minna.
Það er rétt að ítreka að vegna Evrópuleikja Hauka þá er leikurinn á óvenjulegum tíma þ.e.a.s. ekki hefðbundinn fimmtudagsleikur heldur á miðvikudegi en hefst klukkan 19:00. Við treystum því að stuðningsmenn láti þetta berast til allra í kringum sig og fjölmenni í KA heimilið á miðvikudaginn enda hægt að lofa góðri skemmtun.
Við vonumst til að sjá þig á leiknum gegn Haukum á miðvikudaginn!
Leikmenn og stjórn Akureyrar Handboltafélags.