Hyllum Mörthu fyrir fyrsta heimaleikinn

Handbolti

KA/Þór tekur á móti Haukum á sunnudaginn í fyrsta heimaleik vetrarins í Olísdeild kvenna. Martha Hermannsdóttir hefur nú lagt skóna á hilluna og munum við að sjálfsögðu hylla hana fyrir leikinn en hann hefst klukkan 16:00 og því eina vitið að mæta snemma.

Martha er án nokkurs vafa mesta goðsögnin í sögu KA/Þórs og á það svo sannarlega skilið að við fjölmennum og hyllum hana almennilega. Hún er leikjahæsti leikmaðurinn í sögu KA/Þórs með 308 leiki og hefur verið leiðtogi liðsins bæði innan sem utan vallar. Með KA/Þór varð hún Íslands, Bikar- og Deildarmeistari auk þess að verða Meistari Meistaranna og í öll skiptin hampaði hún bikarnum sem fyrirliði liðsins.

Það er spennandi vetur framundan hjá stelpunum okkar þar sem við byggjum á ungum og efnilegum stelpum sem koma úr yngriflokkastarfi KA/Þórs og hvetjum við ykkur því eindregið til að kaupa ársmiða hjá stelpunum í vetur. Hlökkum til að sjá ykkur tímanlega á sunnudaginn og hyllum okkar einu sönnu Mörthu eins og hún á skilið, áfram KA/Þór!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is