Hugleiðingar formanns Handknattleiksdeildar

Í lok árs er gott að staldra við og gera upp liðið ár, bæði til að sjá hvað var vel gert og eins til að skoða hvort eitthvað megi betur fara hjá Handknattleiksdeildinni.

Hápunktur síðasta árs var án efa Íslandsmeistaratitill í 3.fl.karla.  Liðið sigldi gegnum veturinn án verulegra erfiðleika, en þó sérstaklega frá áramótum.  Strákarnir stóðu sig frábærlega undir stjórn Jóhanns Gunnars og Sævars þjálfara sinna.  Aðrir flokkar stóðu sig á viðunandi hátt og árangur verður ekki alltaf mældur út frá titlum heldur iðkendafjölda og góðu starfi og góðum anda í hverjum flokki.



Íslandsmeistarar 3. flokks ásamt unglingaráði handknattleiksdeildar KA

Margir hæfir þjálfarar starfa hjá Handknattleiksdeildinni og eru þeim hér með færðar sérstakar þakkir fyrir góð störf.  Stefna deildarinnar er að hafa vel menntaða og hæfa þjálfara hjá hverjum flokki og svo ungt og áhugasamt handboltafólk til aðstoðar.  Stundum tekst ekki að fá menntaða þjálfara á alla flokka og þá hefur Sævar Árnason yfirþjálfari yngri flokka verið bakhjarl yngri þjálfara sem eru að stíga sín fyrstu skref.

Meistaraflokkur kvenna, lið KA/Þórs, er eini meistaraflokkurinn eftir að karlarnir hófu að leika undir merkjum Akureyri Handboltafélags.  Árangur kvennaliðsins á síðasta keppnistímabili var ágætur, en liðið endaði í 7. sæti 1. deildar undir stjórn Hlyns Jóhannssonar.  Á haustdögum var hins vegar ljóst að 5-6 af byrjunarliðsmönnum ætluðu ekki að vera áfram með liðinu og þá var ákveðið að draga liðið úr efstu deild og senda í staðinn lið í 2. deild kvenna.  Nú um áramót er liðið í öðru sæti í deildinni eftir að hafa leikið 6 leiki, þar af 5 á útivelli.  Það er mikið áhyggjuefni að aðeins eitt sunnanlið(Selfoss) hefur fengist norður til að spila við okkur fyrir áramót og HSÍ gerir lítið til að aðstoða okkur. 

Allir kvennaflokkarnir sem æfa handbolta gera það undir sameiginlegum merkjum KA og Þórs en við KA menn sjáum um  að halda utan um æfingarnar.  Karlaflokkarnir til og með 3. flokki eru hins vegar ennþá eingöngu í umsjón KA.  Akureyri Handboltafélag sér svo um rekstur 2.fl.og meistaraflokks karla.  Ég treysti mér ekki til að spá um þróunina í þessum málum, það væri e.t.v. best að spyrja einhverja af þeim fjölmörgu völvum sem um áramót tjá sig um framtíðina.

Stjórn Handknattleiksdeildar og stjórn Unglingaráðs vinna sameiginlega að framgangi handboltans hjá félaginu og gengur það samstarf vel.  Nú eru um 300 handboltaiðkendur hjá deildinni og hefur farið fjölgandi á undanförnum 2-3  árum og nálgast nú þann fjölda sem æfði á gullaldartíma félagsins árin 1995-2000.  Að venju felst starf stjórnar-manna aðallega í því að útvega fjármagn til reksturs deildanna og gengur það nokkuð vel og mörg fyrirtæki sýna starfinu áhuga og styðja okkur. Stjórnirnar okkar eru að mestu skipaðar áhugasömum foreldrum barna sem iðka handbolta.  Ef fleiri áhugasamir foreldrar vilja vera með er alltaf hægt að bæta við góðu fólki.

Í gær var undirritaður staddur í veglegri veislu Samherja í húsnæði Flugsafns Íslands.  Þar sýndu Samherjamenn enn og aftur stórhug sinn og umhyggju fyrir ungmennum á Akureyri.  Þeir gáfu 75 milljónir til íþrótta- og æskulýðsstarfs á Akureyri og í nágrenni.  Eins og Ólafur Rafnsson formaður Íþrótta- og ólympíusambands Íslands sagði í ræðu við þetta tækifæri þá er þetta þrefalt meira en íslenska ríkið lætur í styrki til afreksíþrótta.  Kærar þakkir Samherjamenn, þið eruð okkur sannarlega hvatning til að leggja okkur fram og standa okkur í þeim verkefnum sem framundan eru.


Frá afhendingu Samherjastyrksins í gær

Á árinu 2011 bíða okkar að venju fjölmörg verkefni og stefnan er áfram að vera í fremstu röð handboltaiðkenda á landinu.  Því hvet ég alla áhugamenn um handbolta að koma í KA heimilið, kíkja á æfingar, mæta á leiki og styðja okkar fólk, bæði þjálfara og iðkendur.

Takk fyrir árið sem er að líða og megi árið 2011 verða gæfuríkt fyrir okkur öll

Erlingur Kristjánsson formaður Handknattleiksdeildar