Heimir Örn Árnason skrifaði í dag undir nýjan samning við handknattleiksdeild KA og mun þjálfa liðið ásamt núverandi þjálfara Stefáni Árnasyni. Heimir Örn lék með KA í vetur en hefur ekki tekið ákvörðun hvort hann muni leika með liðinu á komandi tímabili en hann verður 39 ára í maí.
Samningurinn er til tveggja ára en Heimir býr yfir gríðarlegri reynslu í handboltanum enda hefur hann komið að öllum hliðum leiksins, sem leikmaður, þjálfari og dómari og það allt með góðum árangri.
Hér má sjá nokkra takta Heimis fyrir KA fyrir nokkrum árum
Heimir er uppalinn í KA og lék sína fyrstu meistaraflokksleiki tímabilið 1995-1996. Með KA vann hann allt sem hægt var að vinna og eftir Íslandsmeistaratitilinn með liðinu 2002 lék hann með Haslum í Noregi, Val, Fylki, Bjerringbro-Silkeborg í Danmörku, Stjörnunni, Akureyri Handboltafélagi, Hömrunum og loks aftur KA í vetur.
Heimir lék 23 landsleiki fyrir Íslands hönd og lék til að mynda á Evrópumótinu í Sviss árið 2006 en tímabilið 2005-2006 var hann valinn besti leikmaður Íslandsmótsins og aftur 2007-2008.
Mikil ánægja er að fá Heimi inn og verður gaman að sjá hvað þeir Stefán og Heimir ná útúr liðinu á komandi tímabili. KA tryggði sér sæti í deild þeirra bestu eftir öruggan sigur á HK í umspili um laust sæti í Olísdeildinni og er ljóst að framundan er áframhaldandi uppbygging á liðinu sem og umgjörðinni í handboltanum.