Haukar sitja sem stendur í 3. sæti N1 deildarinnar með 19 stig líkt og Fram sem er í 4. sætinu. HK er síðan í 5. sæti aðeins einu
stigi á eftir þannig að Haukarnir leggja allt í sölurnar til að reyna að tryggja stöðu sína meðal fjögurra efstu og þar með
sæti í úrslitakeppninni.
Á dögunum var Halldóri Ingólfssyni sagt
upp sem þjálfara Hauka en Gunnar Berg Viktorsson ráðinn þjálfari út leiktíðina og markvörðurinn Birkir Ívar
Guðmundsson honum til aðstoðar. Gunnar Berg á sér langa sögu með Haukum, fyrst sem stórskytta en seinustu árin sem varnartröll enda
hávaxinn maður þar á ferð. Gunnar Berg hefur lítið sem ekkert leikið í vetur þar sem hann gekkst undir aðgerð sem hann er að jafna
sig eftir. Hann er að stíga sín fyrstu skref sem þjálfari í meistaraflokki en hefur undanfarin misseri þjálfað unglingaflokka hjá
Haukum.
Það fer ekkert á milli mála að Haukaliðið er gríðarlega öflugt og reynsluboltar þar innanborðs. Þar nægir að nefna
markvörðinn og þjálfarann Birki Ívar Guðmundsson, hornamennina Frey Brynjarsson og Einar Örn Jónsson og markamaskínuna Björgvin
Hólmgeirsson.
Síðan eru fjölmargir ungir strákar sem hafa þó fengið mikla reynslu og eru vanir að taka af skarið þegar á þarf að halda. Til
dæmis nefnum við markvörðinn unga Aron Rafn Eðvarðsson sem hefur fengið tækifæri með íslenska landsliðinu, hornamanninn Guðmund
Árna Ólafsson og skytturnar þrjár: Þórð Rafn Guðmundsson, Tjörva Þorgeirsson og Stefán Rafn Sigurmarsson. Auk þess sem Heimir
Óli Heimisson er öflugur á línunni.
Í síðasta leik Hauka gegn HK var Björgvin markahæstur að vanda með 9 mörk, Tjörvi með 5 og Einar Örn með 4. Guðmundur og
Þórður með 3 mörk hvor. Á lokamínútum leiksins fékk Einar Örn reyndar beint rautt spjald og hefur nú verið
úrskurðaður í leikbann þannig að hann verður ekki með í leiknum.
Allavega er ljóst að Haukar munu leggja allt í sölurnar í leiknum, hjá þeim er sæti í úrslitakeppninni í húfi og
því þarf Akureyrarliðið að spýta í lófana og mæta til leiks af sama krafti og þegar liðin mættust í október.
Við treystum á dyggan stuðning áhorfenda sem hafa ávallt fyllt Höllina þegar Haukarnir hafa mætt á staðinn enda eru viðureignir
þessara liða ávallt einhverjir stærstu leikir tímabilsins. Á því verður engin breyting á fimmtudaginn.
Mottumarsátak hjá liðinu
Leikmenn Akureyrarliðsins eru sumir
orðnir nokkuð loðnir á efri vörinni og verða enn vígalegri í lok mánaðarins. Að sjálfsögðu er tilgangurinn með þessu
framtaki að styrkja gott málefni sem er baráttan gegn krabbameini. Á heimasíðu Akureyrarliðsins á Mottumars.is er hægt að gefa til
söfnunarinnar og í leiðinni fá strákarnir klapp á bakið fyrir að láta gott af sér leiða.
Smelltu hér til að skoða söfnunarsíðuna þeirra.