Háspennuleikur þegar KA og Valur mættust í kvöld

Frá leiknum í kvöld, mynd Þórir Tryggvason
Frá leiknum í kvöld, mynd Þórir Tryggvason

Það er óhætt að segja að það hafi verið geggjaður leikur í KA heimilinu í kvöld þegar KA tók á móti stórliði Vals. Valsliðið er klárlega eitt best skipaða lið deildarinnar en KA liðið sýndi strax að það ætlaði að selja sig dýrt. Jafnt var á fyrstu tölum upp í 3-3 en þá kom frábær kafli heimamanna sem skoruðu næstu þrjú mörk og staðan orðin 6-3.

Valsarar tóku leikhlé sem skilaði þeim aftur þrem mörkum í röð og allt í járnum sem var reyndin það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en staðan 9-9 í hálfleik.

Jovan Kukobat átti stórleik í KA markinu og varði fjölmörg skot úr opnum færum, í Valsmarkinu var Daníel Freyr sömuleiðis í miklum ham og þeir klárlega bestu menn vallarins.

Tímalína fyrri hálfleiks 

Sama strögglið hélt áfram í seinni hálfleik, KA með frumkvæðið í leiknum fyrstu tólf mínúturnar en með þrem Valsmörkum í röð snerist dæmið við. Munurinn varð þó áfram eitt til tvö mörk Val í vil. Þegar sex mínútur voru eftir náðu Valsmenn þriggja marka forskoti, 17-20 en tvö KA mörk í röð hleyptu heldur betur fjöri í húsið.

Þegar mínúta var eftir af leiknum var staðan 20-21 og Valur í sókn. Sú sókn varð ógnarlöng og viðburðarík, höndin var komin upp, KA menn vildi fá skref á Magnús Óla en dómararnir ráku þess í stað Jón Heiðar Sigurðsson af velli, sem var afar sérstök ákvörðun því ef eitthvað var hefði Heimir Örn átt að fá reisupassann. Fyrir vikið fór höndin niður og Valur fékk nýja sókn. Jovan varði en Valsmenn náðu frákastinu en boltinn síðan dæmdur af Val. KA menn geystust í sókn en Valsmenn höfðu náð að biðja um leikhlé í öllum látunum og fengu því boltann einu sinni enn. Upp úr því náði Agnar Smári að skora lokamark leiksins og tryggja Valsmönnum tveggja marka sigur 20-22.

Tímalína seinni hálfleiks 

Vissulega svekkjandi fyrir heimamenn að fá ekkert út úr leiknum eftir hetjulega framgöngu þar sem vörn og markvarsla var til mikillar fyrirmyndar. Sóknin hefur oft gengið betur en þess ber að gæta að Valsvörnin var sömuleiðis gríðarlega sterk og Daníel Freyr í ham í Valsmarkinu.

Mörk KA: Tarik Kasumovic 6, Andri Snær Stefánsson 5 (2 úr vítum), Áki Egilsnes 4, Einar Birgir Stefánsson 3, Dagur Gautason og Sigþór Gunnar Jónsson 1 mark.
Í markinu varði Jovan Kukubat 20 skot.

Mörk Vals: Anton Rúnarsson 9 (3 úr vítum), Magnús Óli Magnússon 7, Agnar Smári Jónsson 3, Róbert Aron Hostert 1, Ryuto Inage 1 og Stiven Tobar Valencia 1 mark.
Daníel Freyr Andrésson varði 16 skot í Valsmarkinu, þar af eitt vítakast.