Leik Akureyrar og ÍBV frestað um viku

Nú er búið að ákveða að fresta leik Akureyrar og ÍBV sem vera átti í KA-Heimilinu sunnudaginn 12. mars um viku. Það þykir útséð að ekki verði ferðaveður á sunnudaginn og þess í stað gert ráð fyrir að leikurinn fari fram sunnudaginn 20. mars klukkan 16:30.
Liðin hafa mæst tvisvar í vetur og í báðum leikjum var um sannkallaða háspennu að ræða en báðum leikjum lauk með jafntefli! Liðin mættust hér á Akureyri í síðasta leik ársins 2015 þar sem allt ætlaði að ganga af göflunum í lokin en Eyjamenn jöfnuðu þá andartaki fyrir leikslok.

Nú er svo sannarlega mikilvægt að okkar menn mæti einbeittir til leiks og berjist fyrir stigunum því það er stutt á milli liða bæði upp á við og niður á við í deildinni.

Eyjamenn eru í 3. sæti Olísdeildarinnar eftir jafntefli í gær við Gróttu á heimsvelli sínum, fjórum stigum á undan Akureyri sem er í 8. sætinu.

En eins og maðurinn sagði þá er næsta víst að bæði lið ætla sér stigin í þessum leik og þar verður barist til þrautar fram á síðustu sekúndu leiksins.

Leikurinn hefst klukkan 20:00 á sunnudaginn, þetta er leikur sem enginn má missa af.

2. flokkur: Akureyri 1 - Stjarnan á laugardaginn
Strákarnir í 2. flokki fá Stjörnuna í heimsókn laugardaginn 12. mars og hefst leikurinn klukkan 16:30 í KA heimilinu. Við hvetjum alla til að koma og styðja strákana til sigurs það er alltaf þörf á fleiri stigum. Strákarnir hafa verið nokkuð sveiflukenndir í sínum leikjum eins og kom berlega í ljós 26.-27. febrúar þegar þeir mættu ÍBV í tveim leikjum. Fyrri leikinn vann ÍBV með níu mörkum, 36-27 en daginn eftir vann Akureyri öruggan átta marka sigur, 30-22.

Við skulum hjálpa strákunum að sýna sitt besta andlit á laugardaginn klukkan 16:30.

Orkulykillinn – happdrættið er í fullum gangi

Fjölmargir náðu sér í Orkulykilinn á síðasta heimaleik og eru þar með orðnir þátttakendur í happdrætti sem er trúlega ódýrasta happdrætti sem þekkist því „miðinn“ kostar ekkert og þú færð hreinlega borgað fyrir með lægra eldsneytisverði með því einu að taka þátt!
Fyrirhugað var að draga í happdrættinu í hálfleik á sunnudaginn en Orkan ákvað að breyta til og miða við síðasta heimaleik Akureyrar í deildarkeppninni en það verður þegar Afturelding kemur, miðvikudaginn 23. mars.
Allir sem hafa virkjað Akureyrarlykil Orkunnar fyrir 22. mars fá boðsmiða á leik Akureyrar og Aftureldingar. Það er því hægt að nálgast lykla áfram og vinningarnir ekki af verri endanum:

Vinningar í happdrættinu eru:

  • 10.000 króna eldsneytisinneign hjá Orkunni
  • Keppnistreyja Akureyrar Handboltafélags
  • Gisting á Storm Hótel Reykjavík með morgunverði fyrir tvo
  • 5.000 krónu inneign hjá Greifanum
  • Hádegisverður fyrir tvo á veitingastaðnum Múlaberg

Það er því engin spurning um að ná sér í Orkulykilinn og virkja hann nú þegar!

Við vonumst til að sjá þig um helgina,
Leikmenn og stjórn Akureyrar Handboltafélags.