Háspennuleikur á Nesinu í 8 liða úrslitum bikars hjá 4. flokki kvenna

Það var hart barist frá fyrstu mínútu og ljóst að varnir bekkja liða væru tilbúnar í leikinn enda staðan 0-1 fyrir norðanstúlkur eftir 8 mín. KA/Þór var að búa sér til úrvals færi en markvörður Gróttu fór vægast sagt hamförum í leiknum og hélt sínum stúlkum á floti lengi vel. Leikurinn var allt til enda í járnum og munurinn aldrei meiri en eitt til tvö mörk.   
Þegar rúm hálf mínúta var eftir af leiknum var staðan 14-15 fyrir KA/Þór og norðanstúlkur með boltann. Illa gekk að finna glufur á vörninni og hendin komin upp til merkis um yfirvofandi leiktöf. Gríðarlega mikil stemming var í húsinu á þessum tíma og mikil læti. Svo mikil læti að tímaverðir urðu ekki þess varir þegar beðið var um leikhlé fyrr en eftir að búið var að dæma leiktöf. Það var þó leiðrétt eftir mikinn darraðadans á ritaraborðinu og KA/Þór fékk sitt leikhlé og 25 sekúndur eftir af leiknum. Stillt var upp í leikkerfi sem gekk ekki upp og Grótta geystist upp í hraðaupphlaup, boltinn endaði út í hægra horni þar sem þær skorðuðu glæsilegt mark og jöfnuðu leikinn og ætlaði allt um koll að keyra í húsinu enda ekki nema um tíu sekúndur eftir og allt útlit fyrir að framlengja þyrfti leikinn. KA/Þór þurfti þó að ná flugvél og hafði engan tíma í svoleiðis vitleysu. Þær geystust upp í hraða miðju, Þórunn sótti á og fékk á móti sér her Gróttu stúlkna, náði að losa boltann á Ásdísi Guðmundsdóttur sem þrátt fyrir að standa andspænis tveimur vígbúnum Gróttu stelpum náði að þruma hnitmiðuðu undirhandarskoti á milli lappanna á besta leikmanni Gróttu í leiknum rétt í þann mund sem lokaflautið gall. Stórglæsilegur eins marks sigur í gífurlega erfiðum leik staðreynd og undanúrslit í bikar staðreynd.

Leikurinn var erfiður frá fyrstu mínútu. Spennustigið var hátt, stemmingin á nesinu virkilega góð og mikil læti. Stelpurnar gerðu fá mistök í vörn og sókn en markvörður Gróttu gerði þeim afar erfitt fyrir eins og áður segir. Grótta á heiður skilinnfyrir hetjulega baráttu en norðanstúlkur sýndu gífurlegan karakter og gáfust aldrei upp og uppskáru eftir því.
Ásdís Guðmundsdóttir skoraði 8 mörk í leiknum, Þórunn Sigurbjörnsdóttir 5, Aldís Heimisdóttir 2 og Kolbrún María Bragadóttir 1.
Í markinu var Sunna Pétursdóttir traust að vanda og varði 14 skot þar af þrjú hraðaupphlaup.

Nú á sunnudaginn er yngra ár 4. flokks kvenna að spila gegn HK hér heima á Akureyri, nánar tiltekið í KA heimilinu klukkan 15:00 í 8 liða úrslitum bikars.
Hér verður gerð sú krafa að allir mæti og styðji vel við bakið á þeim og búin verði til alvöru bikarstemming enda ekki dónalegt að ná báðum liðum í undanúrslit bikars.