Háspenna gegn ÍBV á sunnudaginn

Eftir leiki gærdagsins fá leikmenn Akureyrar og ÍBV ekki langa hvíld því að liðin mætast á sunnudaginn í KA heimilinu. Það er leikurinn sem var frestað um síðustu helgi vegna óveðurs. Nú eru allar horfur á að veðurguðirnir verði til friðs og er leikurinn settur á klukkan 16:30.

Eyjamenn máttu sætta sig við tap í gær á heimavelli gegn Val og sitja sem stendur í 5. sæti deildarinnar með 24 stig en Akureyri í því 8. með 21 stig en bæði lið eiga þennan leik til góða á keppinauta sína.

Liðin eru bæði búin að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni en fyrir liggur hörð barátta um að komast ofar í töflunni til að tryggja sér vænlegri stöðu í úrslitarimmunum en þar er stutt á milli liða, einungis fimm stig frá 3. til 8. sætis.

Akureyri og ÍBV hafa mæst tvisvar í vetur og í báðum leikjum var um sannkallaða háspennu að ræða en leikjunum lauk með jafntefli! Liðin mættust hér á Akureyri í síðasta leik ársins 2015 þar sem allt ætlaði að ganga af göflunum í lokin en Eyjamenn jöfnuðu þá andartaki fyrir leikslok.

Við getum því gert ráð fyrir að bæði lið leggi allt í sölurnar í þessum leik og það verði háspenna til síðustu stundar.

Leikurinn hefst klukkan 16:30 á sunnudaginn, þetta er leikur sem enginn má missa af.

Það er einnig stutt í næsta leik því á miðvikudaginn mæta Mosfellingar norður en sá leikur hefst klukkan 19:30 eins og allir leikir í næstsíðustu umferð Olís deildarinnar.

2. flokkur með þrjá heimaleiki um helgina
Þá er ekki síður mikið í gangi hjá 2. flokki um helgina. Strákarnir í Akureyri 2 hefja baráttuna í kvöld en þeir mæta Víkingum í KA heimilinu klukkan 19:30. Bæði Akureyrarliðin leika á laugardaginn við Gróttu og eru báðir leikirnir í Íþróttahöllinni. Akureyri 1 mætir Gróttu 1 klukkan 12:45 en sá leikur er í 1. deildarkeppninni. Strax þar á eftir, eða klukkan 14:30 mætast Akureyri 2 og Grótta 2 en sá leikur er í 2. deild.

Við skulum hjálpa strákunum að sýna sitt besta andlit um helgina, leikjaplanið þeirra er sem sé þannig:

Fös. 18.mar.2016 klukkan 19:30 í KA heimilinu Akureyri 2 - Víkingur
Lau. 19.mar.2016 klukkan 12:45 í Höllinni Akureyri 1 - Grótta 1
Lau. 19.mar.2016 klukkan 14:30 í Höllinni Akureyri 2 - Grótta 2

Við vonumst til að sjá þig um helgina,
Leikmenn og stjórn Akureyrar Handboltafélags.