Martha Hermannsdóttir er 33 ára gömul handknattleikskona og algjör burðarás í liði KA/Þórs í handbolta.
Martha leikur sem leikstjórnandi eða skytta hjá KA/Þór sem leikur í 1. deild kvenna í handbolta. Á síðustu leiktíð féll liðið niður um deild en í fyrsta skipti í mörg ár er keppt í tveimur kvennadeildum í handbolta á Íslandi. Það gerði það að verkum að sjö lið féllu úr úrvalsdeildinni í fyrra og var KA/Þór eitt af þeim.
Martha lék ekkert með KA/Þór á síðasta keppnistímabili (2015/2016) þar sem hún var í barneignarleyfi. Martha kom hinsvegar gríðarlega sterk til leiks í vetur þar sem hún hefur leikið 9 leiki með KA/Þór og skorað í þeim 77 mörk. Það gera 8,5 mörk að meðaltali í leik. Martha er ekki aðeins burðarásin í sóknarleiknum og lang-markahæst heldur er hún einnig mikill máttarstólpi í vörn liðsins. KA/Þór er sem stendur með 13 stig í 4. sæti deildarinnar, tveimur stigum frá toppsætinu.
Martha er gríðarlega góð fyrirmynd innan sem utan vallar. Hún sýnir mikla leiðtogahæfni og er alltaf jákvæð og brosandi inn á vellinum. Utan vallar er Martha þriggja barna móðir og á hún og rekur tannlæknastofu. Það er því í nógu að snúast hjá Mörthu.
Martha hefur áður verið tilnefnd af handknattleiksdeild en það var árið 2014 og varð hún hlutskörpust það árið í kjörinu. Martha er aftur frábær kandídat sem íþróttamaður KA árið 2016.