4. flokkur kvenna hóf keppni á Íslandsmótinu um helgina með sitt hvorum heimaleiknum. 99 liðið spilaði gegn Selfoss á meðan 00 árgangurinn mætti Val.
Þar sem um fyrsta leik KA/Þór var að ræða var ljóst að vélin myndi eitthvað hiksta framan af sem var raunin. Leikurinn frekar hægur, nokkur mistök í vörninni og sóknin oft verið betri. Fyrri hálfleikur leið í gegn líkt og stelpurnar væru alltaf í öðrum til þriðja gír. Þrátt fyrir það héldu þær sínum dampi ágætlega og leiddu í hálfleik, 12-8.
Í seinni hálfleik náðu þær að hrista af sér slenið og spýttu í. Vörnin lokaðist, markvarslan kom í kjölfarið og þægileg hraðaupphlaupsmörk juku forskotið. Í uppstilltri sókn spiluðu þær af skynsemi og leituðu að besta færinu. Þegar korter var búið af síðari hálfleik var staðan 17-9 fyrir KA/Þór.
Síðustu tíu mínúturnar urðu þær heldur kærulausar, fóru að taka ótímabær skot og gleymdu sér í vörninni þannig að Selfoss náði að laga stöðuna í 20-14 sem urðu lokatölur. Leikurinn bar þess merki að um fyrsta leik vetrarins var að ræða. Kerfin voru oft ekki alveg rétt útfærð og varnarskiptingar klikkuðu öðru hvoru. Hins vegar spiluðu stelpurnar heilt yfir vel og virtust geta komið sér í færi þegar þeim sýndist.
Aldís Heimisdóttir spilaði virkilega vel og fiskaði fjöldan allan af vítum ásamt því að skora 4 mörk. Ný-köggullinn Una Kara Vídalín átti þó stórleik og skoraði 14 mörk úr 17 skotum sem verður að teljast ásættanleg prósenta. Í markinu stóð Heiðbjört Guðmundsdóttir sig einkar vel með 14 bolta varða.
Beint á eftir spilaði 00 liðið einnig sinn fyrsta leik. Leikurinn byrjaði hreinlega ekki hjá KA/Þór fyrr en Valur var komið 2-8 yfir og tólf mínútur búnar af leiknum. Þá var brugðið á það ráð að fara í framliggjandi vörn og virtist það aðeins kveikja í heimastúlkum. Þær náðu að vinna sig inn í leikinn og minnka í 6-8 áður en Valur náði að lúðra inn einu aulamarki þar sem sofandaháttur gerði vart við sig í vörn heimastúlkna. Þannig stóð í hálfleik 6-9 sem var í raun ótrúlegt miðað við hversu illa heimastúlkur spiluðu í fyrri hálfleiknum.
Seinni háflleikur byrjaði svo eins og sá fyrri. Stelpurnar fóru aftur inn í skel og stóðu negldar niður í hælana í vörninni og virtust hálf ráðalausar í sókninni. Þær náðu þó aðeins að sýna sitt rétta andlit undir lok leiks og rétta af stöðuna þannig að tapið var ekki of stórt, lokatölur 15-21.
Markahæstar voru Katrín Línberg með sjö mörk og Ólöf Hlynsdóttir með fimm. Sem fyrr stóð Heiðbjört Guðmundsdóttir í markinu og stóð sig með sóma.
Það býr hellingur í þessu yngra árs liði. Þær þurfa hins vegar að átta sig á því að þær eru í handbolta og þar má taka á mótherjanum. Það er í góðu lagi að láta í sér heyra og slá frá sér. Handbolti er ekki leikur án snertinga og þegar þær átta sig á því þá verður virkilega gaman að fylgjast með þeim.
Inn á milli eru stelpur sem eru snillingar með boltann og vita upp á hár um hvað leikurinn snýst. Þær eru hins vegar allt of feimnar hreinlega inn á vellinum til að hæfileikar þeirra fái að njóta sín.
Það verður því verkefni vetrarins hjá þessu liði í vetur að skríða út úr skelinni og fara að nýta þá hæfileika sem þær hafa.