Það má segja að Akureyringar standi í ströngu á flestum vígstöðvum handboltans um helgina. Tveir leikjanna fara fram hér á Akureyri.
Olís deild karla
Akureyri heldur í Mosfellsbæinn á laugardaginn og mætir þar toppliði Aftureldingar í 13. umferð Olísdeildar karla klukkan 18:30.
Afturelding er sem áður segir á toppi deildarinnar með 18 stig eftir tólf leiki, þeir töpuðu má segja óvænt fyrir Selfyssingum í fyrsta leik deildarinnar en sneru í framhaldinu heldur betur við blaðinu og unnu næstu átta leikina. Sagan endurtók sig í upphafi annars hluta deildarinnar en þá tapaði Afturelding aftur fyrir Selfossi og máttu í kjölfarið sætta sig við stórtap, 17-35 gegn Haukum á heimavelli.
Afturelding rétti síðan úr kútnum í síðustu umferð með góðum tíu marka útisigri á Fram, 28-38.
Markahæstu menn liðsins í Olís deildinni eru Árni Bragi Eyjólfsson með 79 mörk, Birkir Benediktsson með 52, Elvar Ásgeirsson 38 og Mikk Pinnonen 35 mörk. Líkt og fleiri lið hefur Afturelding glímt við meiðsli lykilmanna, þannig hefur Mikk Pinnonen misst af síðustu fimm leikjum liðsins. Birkir Benediktsson meiddist í leiknum gegn Selfossi og missti fyrir vikið af tveim síðustu leikjum liðsins.
Liðin mættust hér á Akureyri 22. september og þar mátti Akureyri sætta sig við sex marka tap, 24-30 og þarf ekki að efast um að strákarnir ætla að kvitta fyrir þann leik. Við hvetjum alla norðanmenn sem verða í grennd við Mosfellsbæinn til að kíkja í Íþróttamiðstöðina á Varmá í Mosfellsbænum og styðja strákana í baráttunni á laugardagskvöldið.
Við gerum ráð fyrir að sýna beint frá leiknum á Akureyri TV og kemur linkur á útsendinguna á heimasíðu Akureyrar þegar nær dregur leiknum.
1. deild karla
Ungmennalið Akureyrar mætir KR í 1. deild karla í kvöld, föstudag klukkan 20:00 en leikið verður í DHL höllinni í Vesturbæ Reykjavíkur.
Að loknum 9 leikjum er KR með 11 stig og sitja í 4. sæti deildarinnar. Akureyri U hefur leikið 8 leiki og er með 6 stig að þeim loknum í 9. sætinu. KR hefur verið á góðu skriði upp á síðkastið og unnið síðustu þrjá leiki sína. Akureyri U hefur unnið tvo af síðustu þrem leikjum sínum, síðast unnu þeir Hamrana í spennuleik um Akureyrarstoltið.
Frá leik Akureyri U og Hamranna
Talandi um Hamrana þá eiga þeir heimaleik í kvöld þegar þeir fá Víkinga í heimsókn í KA heimilið klukkan 20:15. Víkingar hafa 10 stig eftir 9 leiki og sitja í 5. sæti deildarinnar á meðan Hamrarnir eru með 4 stig eftir 8 leiki í 10. sæti deildarinnar.
2. flokkur karla
Það er orðið býsna langt síðan strákarnir í 2. flokki Akureyrar léku í deildinni en síðasti leikur þeirra var 8. október þegar þeir unnu góðan sigur á Fram hér í Íþróttahöllinni. Á sunnudaginn klukkan 14:00 er loksins komið að leik hjá strákunum en þá mætir HK í Íþróttahöllina. Að loknum þrem leikjum er Akureyri taplaust, með 4 stig (tvö jafntefli og einn sigur) HK liðið er einnig taplaust, reyndar eftir fjóra leiki, þrír sigrar og eitt jafntefli sem skila þeim 7 stigum.
Nokkrir liðsmanna 2. flokks sem komu við sögu með Ungmennaliðinu gegn Hömrunum
Það er því von á spennandi leik hjá strákunum á sunnudaginn og ástæða til að fylgjast með leiknum í Íþróttahöllinni, það er frítt inn á leikinn.
Aðrir flokkar
3. flokkur karla hjá KA verður á suðvesturhorninu um helgina þar sem KA 1 spilar tvo leiki í 1. deildinni (gegn Haukum og ÍR) en KA 2 spilar þrjá leiki í 3. deild (gegn HKR, HK 2 og Haukum 3).
4. flokkur karla hjá Þór Yngra ár spilar bikarleik á útivelli gegn Víkingum á laugardaginn.
Engir leikir virðast vera á döfinni um helgina hjá KA/Þór í kvennaboltanum.