Handboltaveislan hefst í dag | Kristín Aðalheiður: Mjög spennt fyrir þessu tímabili

Handbolti

KA/Þór tekur á móti ÍBV í dag kl. 13:00 í KA-heimilinu! Olísdeildin að fara í gang og mikil spenna í loftinu. Fyrirliði KA/Þór, Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir, svaraði nokkrum spurningum fyrir KA.is um komandi tímabil

Nú er enn eitt Íslandsmótið að fara í gang, hvernig ertu? Heyrðu ég er bara mjög spennt fyrir þessu tímabili. Ég held að þetta verði bara virkilega skemmtilegt og spennandi tímabil fyrir okkar unga lið og hvet ég fólk eindregið til þess að koma á völlinn í vetur og fylgjast með liðinu spila.

Hvert stefnir KA/Þór í vetur? Eins og síðasta tímabil er hópurinn nokkuð breyttur en þó höldum við í flesta leikmenn frá því á síðasta tímabili, sem er frábært. Höfum aflað okkur reynslu frá síðasta vetri sem við munum klárlega byggja á fyrir þetta tímabil. Markmiðin eru þannig skýr fyrir hópnum, það er að mestu bara að njóta þess að spila handbolta sem lið og bæta okkar leik. Stefnan er hins vegar alltaf að komast sem næst titlunum sem í boði eru. Við erum nú alveg þekktar fyrir góða liðsheild og stemningu og það eitt fleytir manni oft langt.

Hvernig er hópurinn saman settur? Er góður mórall? Hópurinn samanstendur af frekar ungum leikmönnum, en þrátt fyrir það eru inn á milli leikmenn sem eru með góða reynslu þrátt fyrir ungan aldur sem hjálpar hópnum mikið fyrir komandi átök í deildinni. Það eru allar í hópnum mjög sprækar og góðar í handbolta svo okkur eru allir vegir færir í vetur. Mórallinn er góður, liðið nær mjög vel saman og hefur undirbúningstímabilið verið gríðarlega skemmtilegt með þessum stelpum.

Hvernig er leikdagsrútína þín? Leikdagsrútínan mín er frekar einföld en fer svolítið eftir því hvort við spilum að heiman eða heima. Hún byrjar hins vegar alltaf á góðum morgunverði. Ef við eigum útileik er það klassíska bílferðin suður með liðinu, góð máltíð um 3-2 1/2 klst fyrir leik og liðs göngutúr þegar við mætum á keppnisstað. Heima er þetta svo aðeins rólegra, þá fæ ég mér morgunmat, á bara rólega stund heima, fæ mér góða máltíð, græja mig svo í leik með góða tónlist í eyrunum og mæti svo 1 og 1/2 klst fyrir leik upp í KA heimili.

Hver er lykillinn að velgengni í vetur hjá liðinu? Ég held það sé bara þetta klassíska að ef hausinn er rétt skrúfaður á þá er alltaf séns. Við vitum vel að við erum góðar í handbolta og ef við sínum gleði og baráttu í öllum okkar leikjum verður uppskeran eftir því


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is