Það er rétt að koma þeim skilaboðum á framfæri strax að öllum er boðið frítt í Íþróttahöllina á mánudagskvöldið þegar Akureyri tekur á móti FH í síðasta heimaleiknum í Olís-deildinni. Við vonumst að sjálfsögðu til að fá troðfullt hús og dúndrandi stemmingu enda er hart barist um að klifra upp stigatöfluna í Olís-deildinni.
Það er rétt að ítreka það að Akureyri er öruggt í úrslitakeppnina og getur ekki hafnað neðar en í 7. sæti deildarinnar en á enn fræðilegan möguleika á að ná upp í 4. sæti ef allt fer á besta veg.
Leikurinn á mánudagskvöldið hefst klukkan 19:30 en hann er einmitt liður í næstsíðustu umferð deildarinnar en það er krafa að allir leikir í tveim síðustu umferðunum fari fram á sama tíma.
Áður en kemur að ofangreindum leik gegn FH fer Akureyrarliðið í Hafnarfjörð á laugardaginn og spilar þar við Hauka og hefst sá leikur klukkan 16:00 í Schenkerhöllinni í Hafnarfirði. Lokaumferð Olís-deildarinnar verður svo fimmtudaginn 2. apríl en þá fara strákarnir suður og mæta ÍR í Breiðholtinu.
Það er sem sé þétt prógram framundan hjá Akureyrarliðinu, þrír leikir á sex dögum og til mikils að vinna í þeim öllum. Þeir sem komu í Íþróttahöllina síðasta laugardag og sáu sigurleikinn gegn ÍBV urðu vitni að stórkostlegri skemmtun og frábærum leik Akureyrarliðsins. Vonandi var það forsmekkurinn að því sem er framundan.
Það er óhætt að segja að leikir Akureyrar og Hauka hafa í gegnum tíðina boðið upp á hasar og spennu. Liðin hafa mæst tvisvar í vetur, í fyrri leiknum sem var heimaleikur Hauka unnu þeir eins marks sigur 24-23 en hér í Höllinni vann Akureyri frækinn sjö marka sigur, 28-21.
Hér að neðan er einmitt hægt að skoða meðfylgjandi myndband af æsilegum lokasekúndum í leik liðanna frá 8. desember 2011. Þegar aðeins ein og hálf mínúta er eftir af leiknum eru Haukar yfir 18-19 en Akureyri hinsvegar gafst ekki upp og kláraði leikinn með stæl! Bjarni Fritzson skoraði magnað mark í horninu áður en Hörður Fannar skoraði af línunni á lokasekúndunni og allt gjörsamlega tryllist í Höllinni! Sjón er sögu ríkari!
Strákarnir í 2. flokki eru í hörðum slag um að ná 2. sætinu í sinni deild og þurfa nauðsynlega á stigi eða stigum að halda þegar þeir mæta Stjörnunni klukkan 12:30 í Íþróttahöllinni. Stjarnan hefur þegar tryggt sér efsta sæti deildarinnar en Grótta og Akureyri eru jöfn að stigum í 2.-3. sæti, Grótta á eftir einn leik en Akureyri á tvo eftir, Stjörnuleikinn og frestaðan leik gegn KR.
Það er líka fjör í 1. deildinni en þar fara liðin sem hafna í 2.-5. sæti í umspil um sæti í úrvalsdeild næsta ár. Hamrarnir sitja sem stendur í 5. sætinu en KR í því 6. með sama stigafjölda. Þessi lið mætast einmitt í KR heimilinu á föstudaginn klukkan 19:30 og ljóst að sigurvegarinn í þeim leik fær sæti í umspilinu. Á heimasíðu Akureyrar Handboltafélags er hægt að fylgjast með textalýsingu frá leiknum.
Smelltu hér til að fylgjast með lýsingunni.
Konurnar eru ekki heldur aðgerðalausar um helgina. Á dagskrá eru þrír heimaleikir. Meistaraflokkur KA/Þór tekur á móti toppliði Gróttu á laugardaginn klukkan 13:30. 3. flokkur KA/Þór spilar tvo leiki, fyrst gegn Haukum klukkan 19:30 á föstudaginn og síðan gegn Gróttu klukkan 12:30 á sunnudaginn. Allir þessir leikir eru í KA heimilinu.
Þá eru fjölmargir leikir á dagskrá hjá strákunum í 3. og 4. flokki um helgina en heildaryfirlit handboltans á Akureyri er þannig:
Dagur | Tími | Mót | Flokkur | Völlur | Leikur |
Fös. 27.mars | 14.00 | 3.ka 2.deild | 3.fl.ka | KA heimilið | KA 1 - ÍR |
Fös. 27.mars | 15.30 | 3.ka 3.deild | 3.fl.ka | KA heimilið | KA 2 - ÍR 2 |
Fös. 27.mars | 17.15 | 4.ka Y 2.deild | 4.fl.ka. | Síðuskóli | Þór - ÍR 2 |
Fös. 27.mars | 18.45 | 4.ka Y 1.deild | 4.fl.ka. | Íþróttahöllin | KA 1 - ÍR 1 |
Fös. 27.mars | 19.30 | 3.kv 1.deild | 3.fl.kv. | KA heimilið | KA/Þór - Haukar |
Fös. 27.mars | 19.30 | 1.deild karla | M.fl.ka. | KR heimilið | KR - Hamrarnir |
Lau. 28.mars | 10.00 | 3.ka 3.deild | 3.fl.ka | KA heimilið | KA 2 - ÍR 2 |
Lau. 28.mars | 11.30 | 3.ka 2.deild | 3.fl.ka | KA heimilið | KA 1 - ÍR |
FRESTAÐ | 12.30 | 2.ka 2.deild | 2.fl.ka | Íþróttahöllin | Akureyri - Stjarnan |
Lau. 28.mars | 13.30 | Olís deild kv | Mfl.kv | KA heimilið | KA/Þór - Grótta |
Lau. 28.mars | 14.30 | 4.ka Y 3.deild | 4.fl.ka. | Síðuskóli | KA 2 - ÍR 3 |
Lau. 28.mars | 16.30 | Olís deild ka | Mfl.ka | Schenkerhöllin | Haukar - Akureyri |
Sun. 29.mars | 12.30 | 3.kv 1.deild | 3.fl.kv. | KA heimilið | KA/Þór - Grótta |
Mán. 30.mars | 19.30 | Olís deild ka | Mfl.ka | Íþróttahöllin | Akureyri - FH |
Þannig að það er af nógu að taka hjá handboltaáhugamönnum á Akureyri næstu dagana.