Það verður sannkölluð handboltaveisla í KA heimilinu á laugardaginn þegar bæði lið Akureyrar leika síðustu deildarleikina á árinu.
Kl. 14:00 1. deild karla: Akureyri U - Víkingur
Fjörið hefst klukkan 14:00 með leik Ungmennaliðs Akureyrar gegn fornfrægu liði Víkinga en sá leikur er í 1. deild karla.
Staða liðanna í deildinni er ekki ósvipuð, Ungmennaliðið hefur 8 stig eftir 10 leiki á meðan Víkingur er með 14 stig eftir 12 leiki. Ungmennaliðið vann síðasta leik sinn og strákarnir stefna svo sannarlega að því að gera Víkingum lífið leitt á laugardaginn.
Leikurinn var upphaflega skráður í Íþróttahöllinni en þar sem tækifæri bauðst var hann færður í KA heimilið þannig að stuðningsmenn geta setið áfram og fá samfellda handboltaveislu.
Klukkan 16:00 Olís deild karla: Akureyri - Fram
Klukkan 16:00 er komið að Olís deild karla þar sem Akureyri fær Fram í heimsókn. Sá leikur er gríðarlega mikilvægur þar sem bæði lið eru jöfn að stigum ásamt Gróttu og Stjörnunni í 7. til 10. sæti deildarinnar.
Fram liðið vann sannfærandi sigur á Val í síðustu umferð, 30:23 og veittu Haukum harða keppni í næsta leik þar á undan í leik sem endaði 30-32 fyrir Haukum.
Akureyri og Fram mættust fyrr á tímabilinu í Framheimilinu þar sem Fram náði að knýja fram eins marks sigur, 29:28 þannig að það er næsta víst að bæði lið leggja allt í sölurnar til að ná stigunum úr þessum leik.
Nú þurfum við á öllum ykkar stuðningi að halda og hvetjum því alla stuðningsmenn til að fjölmenna í KA heimilið á laugardaginn og endilega mæta á báða leikina.
Við reiknum með því að sýna báða leikina í beinni útsendingu á Akureyri TV þannig að þeir sem ekki komast í KA heimilið ættu að fylgjast með á heimasíðunni þegar nær dregur. Við birtum tengil á útsendingarnar á heimasíðunni skömmu fyrir leik.
Við vonumst til að sjá þig á leikjunum á laugardaginn
Leikmenn og stjórn Akureyrar Handboltafélags.