Það var mögnuð stemming í KA heimilinu á mánudagskvöldið þegar Hamrarnir tóku á móti Víkingum í umspilsleik um sæti í Olís-deildinni. Víkingar byrjuðu með látum og sérstaklega gleðigjafinn Sigurður Eggertsson sem raðaði inn mörkum að vild lengi vel.
Hamrarnir náðu þó vopnum sínum og minnkuðu muninn þannig að einungis munaði tveim mörkum í hálfleik 10-12.
Kristján Már Sigurbjörnsson var markahæstur Hamranna í leiknum
Sama sagan var í upphafi seinni hálfleiks, Víkingar náðu vænlegri forystu en Hamrarnir seigluðust áfram og minnkuðu muninn niður í tvö mörk og lokamínúturnar urðu verulega spennandi. Víkingar lönduðu að lokum þriggja marka sigri, 19-22 og halda áfram í úrslitaeinvígi við Fjölni um sætið.
Valdimar Þengilsson í hörðum slag í leiknum
Mörk Hamranna: Kristján Már Sigurbjörnsson 6, Arnþór Gylfi Finnsson 3, Valdimar Þengilsson 3, Almar Blær Bjarnason 2, Elfar Halldórsson 2, Róbert Sigurðarson 2, Kristinn Ingólfsson 1 mark.
En Hamrarnir eiga mikið hrós skilið fyrir flotta umgjörð í leiknum og hetjulega baráttu.
Það var flott mæting í KA heimilið og dúndrandi stemming
Þórir Tryggvason var með myndavélina á lofti og sendi okkur þessar myndir en hægt er að sjá fleiri myndir Þóris með því að smella hér.