KA/Þór tók á móti Gróttu í Olís-deild kvenna á laugardaginn. Fyrri viðureign liðanna var æsispennandi en þar bar Grótta sigur úr býtum 25-21. Nú voru norðanstúlkur staðráðnar í að gera betur og taka stigin tvö sem í boði voru. Grótta var fyrir leikinn í 4. sæti deildarinnar með 19 stig en KA/Þór var í 8 stig í 10. sætinu og því vitað fyrirfram að leikurinn yrði erfiður fyrir KA/Þór.
Þegar átökin byrjuðu var jafnræði með liðunum fyrstu mínúturnar en í stöðunni 3-3 þá gáfu heimastúlkur allsvakalega í og náðu undirtökum í leiknum og léku á alls oddi í vörn sem sókn. Grótta átti engin svör við frábærum varnarleik og sóknartaktíkin sem þjálfarar KA/Þórs voru búnir að brýna fyrir leikmönnum gekk mjög vel. KA/Þór jók forskotið jafnt og þétt og náði mest 6 marka forustu í stöðunni 16-10 en Grótta náði að minnka muninn rétt fyrir hálfleik og þegar liðin gengu til búningsklefa hafði KA/Þór 5 marka forskot 16-11.
Í síðari hálfleik fór þreytan kannski aðeins að segja til sín. Sóknarleikurinn hjá liðinu dalaði ögn og stelpurnar skutu Írisi markmann Gróttu í gang. KA/Þór hélt þó forskotinu og náði Grótta ekki að komast framúr. Þær minnkuðu hinsvegar muninn í 19-17 og þegar um 13 mínútur voru til leiksloka var staðan 22-20 KA/Þór í vil. Þá komu tvö mörk í röð frá heimastúlkum og munurinn aftur orðinn fjögur mörk og útlitið bjart. En það var hinsvegar Unnur Ómarsdóttir sem reyndist KA/Þór erfiður ljár í þúfu en hún skoraði þá fjögur síðustu mörk leiksins og lokatölur því 24-24.
Leiðinlegt fyrir stelpurnar að tapa forskotinu niður en Grótta er með gríðarlega öflugt lið sem er að berjast fyrir heimaleikjarétt í úrslitakeppninni í vor og því afar jákvætt fyrir KA/Þór að taka stig í leiknum því KA/Þór stefnir á úrslitakeppnissæti og með þessu jafntefli er liðið búið að sækja fjögur stig í síðustu þrem leikjum og er sem stendur í 8. sæti deildarinnar, sem einmitt er úrslitakeppnissæti.
Markaskor KA/Þórs í leiknum: Martha Hermannsdóttir 10, Birta Fönn Sveinsdóttir 5, Katrín Vilhjálmsdóttir 4, Erla Hleiður Tryggvadóttir 3, Laufey Lára Höskuldsdóttir 1 og Klara Fanney Stefánsdóttir 1.
Stelpurnar halda suður til Reykjavíkur næstu helgi og etja þar kappi við Hauka en KA/Þór sigraði einmitt Hauka í KA-heimilinu í fyrri viðureign liðanna 25-24 í æsispennandi leik. Þær ætla sér ekkert annað en sigur í þeim leik og vonandi halda þær áfram að hala inn stigum í komandi leikjum.