Norðlenska Greifamótið í handbolta hófst í dag þegar KA tók á móti Gróttu og Akureyri á móti Stjörnunni í karlaflokki. KA/Þór lék svo gegn Ungmennaliði KA/Þórs kvennamegin. Mótið fer skemmtilega af stað en í karlaflokki er leikið í tveimur riðlum, annar er leikinn í KA-Heimilinu og hinn í Höllinni.
Dagurinn hófst á innbyrðisviðureign KA/Þórs og KA/Þórs U, leikurinn var frekar jafn í upphafi og gáfu þær yngri ekkert eftir. En þegar leið á fyrri hálfleikinn sýndi eldra liðið mátt sinn og náði góðu forskoti. Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 15-6 fyrir KA/Þór og mesta spennan farin úr leiknum.
Í þeim síðari tókst ungmennaliðinu að halda betur í við þær eldri og úr varð ágætis skemmtun. Lokatölur voru 25-15 en þetta var fyrsti æfingaleikur KA/Þórs fyrir veturinn og verður áhugavert að sjá til liðsins í næstu leikjum á mótinu.
Mörk KA/Þórs: Una Kara Vídalín 7, Martha Hermannsdóttir 6, Rakel Sara Elvarsdóttir 4, Hulda Tryggvadóttir 3, Ólöf Marín Hlynsdóttir 3 og Helga María Viðarsdóttir 2.
Mörk KA/Þórs U: Svala Svavarsdóttir 5, Anna Marý Jónsdóttir 5, Anna Þyrí Halldórsdóttir 3 og Kristín Jóhannsdóttir 2.
Það var öllu meiri spenna í karlaleik kvöldsins þegar Olísdeildarliðin KA og Grótta mættust. Töluverður hasar var í leiknum og mátti varla sjá að um æfingaleik væri að ræða. Jafnt var á nánast öllum tölum í fyrri hálfleik en KA leiddi lungann af hálfleiknum, staðan að honum loknum var 10-10 og allt í járnum.
KA byrjaði síðari hálfleikinn vel, komst tveimur mörkum yfir en svo kom mjög slakur kafli þar sem liðið skoraði ekki í 12 mínútur og gestirnir gengu á lagið. Gróttumenn komust mest 6 mörkum yfir áður en okkar lið komst loksins aftur á blað. Forskotið minnkaði jafnt og þétt en ekki tókst strákunum að jafna og gestirnir fóru að lokum með 24-25 sigur af hólmi.
Mörk KA: Allan Norðberg 6, Áki Egilsnes 5, Tarik Kasumovic 3, Dagur Gautason 2, Sigþór Gunnar Jónsson 2, Einar Birgir Stefánsson 2, Elfar Halldórsson 2, Jón Heiðar Sigurðsson 1 og Sigþór Árni Heimisson 1.
Mörk Gróttu: Jóhann Reynir 9, Sveinn Jose Rivera 3, Ágúst Emil 3, Sigfús Páll 3, Magnús Øder 2, Árni Benedikt 2, Vilhjálmur Geir 2 og Alexander Jón 1.
Á sama tíma fór fram leikur Akureyrar og Stjörnunnar í Íþróttahöllinni en það var opnunarleikur Riðils 2 sem er leikinn alfarið í Höllinni. Garðbæingar fóru á endanum með sigur 21-26 og eru því komnir í góða stöðu í riðlinum fyrir morgundaginn.
Plan morgundagsins má sjá hér fyrir neðan en frítt er á alla leiki mótsins auk þess sem allir leikir í KA-Heimilinu eru sýndir beint á KA-TV.
Föstudagur 24. ágúst |
|||
Staður | Tími | Keppni | Leikur |
KA-Heimilið | 16:30 | KK - R1 | ÍR - Grótta |
Höllin | 17:00 | KK - R2 | HK - Stjarnan |
KA-Heimilið | 18:00 | KVK | KA/Þór - ÍR |
KA-Heimilið | 19:30 | KK - R1 | KA - ÍR |
Höllin | 20:00 | KK - R2 | Akureyri - HK |
KA-Heimilið | 21:00 | KVK | Afturelding - KA/Þór U |