Olís deild karla í handbolta fer aftur af stað á sunnudag þegar KA tekur á móti Fram í gríðarlega mikilvægum leik. Framarar eru í fallsæti með 7 stig en KA er á sama tíma með 10 stig og leikurinn því skólabókardæmi um fjögurra stiga leik. Strákarnir okkar eru staðráðnir í að halda sér í deild þeirra bestu og ljóst að þetta verður lykilleikur í þeirri baráttu.
Stuðningurinn í vetur hefur verið ótrúlegur en það er alveg klárt að við þurfum öll að standa saman á sunnudaginn til að sækja stigin tvö. Með sigri kæmist KA liðið fimm stigum frá fallsæti þegar átta umferðir yrðu eftir.
Fram vann fyrri leik liðanna sem fram fór í Safamýri 26-21 eftir að KA hafði leitt 18-19 er um 10 mínútur lifðu leiks. Framliðið er gríðarlega hættulegur andstæðingur en liðið er óútreiknanlegt, ekki ósvipað okkar liði. Undanfarin ár hafa Framarar komist í Bikarúrslit sem og undanúrslit Íslandsmótsins og ljóst að við þurfum á ykkur öllum að halda í stúkunni á sunnudaginn.