Góður sigur hjá 3. flokki KA/Þór

Rétt eins og í meistaraflokki kvenna og 4. flokki kvenna þá spiluðu stelpurnar í 3. flokknum við ÍR um helgina. Í fyrri leik liðanna sem fram fór í Austurbergi sigraði ÍR 28-25 og voru stelpurnar ekki á þeim buxunum að láta það gerast aftur. Því var búist við hörku leik enda liðin nánast jöfn í deildinni, KA/Þór í 6. sæti með 11 stig og ÍR í því 7. með 10 stig.

Fyrri hálfleikur fór vel af stað hjá heimaliðinu og komust þær í 4-0 og 7-3 á fyrstu 10 mínútum leiksins. Þá kom nokkuð slæmur kafli hjá KA/Þór sem ÍR nýtti sér vel og náðu þær að komast yfir í stöðunni 9-10 og náðu svo tveggja marka forystu þegar skammt lifði fyrri hálfleik, 10-12. Heimastúlkur voru þó sterkari þessar 3 mínútur sem voru eftir af hálfleiknum og jöfnuðu metin í 12-12 áður en flautan gall.

Síðari hálfleikur fór frekar brösuglega af stað hjá KA/Þór og náðu ÍR stelpur að komast í 12-15 en þá sögðu norðanstúlkur „Hingað og ekki lengra“. Vörnin small í gírinn og sömuleiðis Sunna í markinu og í sóknarleiknum léku þær á alls oddi. Á næstu mínútum náðu þær 5-0 kafla og komust í 17-15. ÍR beit aðeins frá sér og náði að minnka muninn í 21-20 en nær komust þær ekki því KA/Þórs liðið gaf þá bara aftur í og náði að auka muninn í 3 mörk þegar um mínúta var eftir, 27-24. Í lokasókninni tapaði ÍR boltanum og KA/Þór fór upp í sókn, nýttu sér leikhlé sem liðið átti eftir að taka, stilltu upp í lokasókn leiksins og skoruðu rétt áður en lokaflautið gall. Lokatölur því 28-24 KA/Þór í vil.

Þessi sigur var gríðarlega mikilvægur fyrir liðið í baráttunni í deildinni en stelpurnar eru að fikra sig hægt og rólega upp töfluna. Þetta var annar leikur liðsins á árinu sem var að byrja en þann 4. janúar sigruðu þær Hauka á útivelli 26-29 í spennuleik svo stelpurnar eru með fullt hús það sem af er 2015.

Næstu helgi, þann 18. janúar, mætir lið Vals í heimsókn og ætla stelpurnar sér ekkert annað en sigur í þeim leik. Sá leikur hefst kl. 12:30 í KA-heimilinu.

Markaskor KA/Þórs á móti ÍR:
Arna Kristín Einarsdóttir 9, Birta Fönn Sveinsdóttir 8, Þórunn Eva Sigurbjörnsdóttir 4, Aldís Anna Höskuldsdóttir 3, Aldís Ásta Heimisdóttir 2, Rakel Ösp Sævarsdóttir 1 og Ásdís Guðmundsdóttir 1.

Í markinu varði Sunna Guðrún Pétursdóttir um 15 bolta