Eldra ár 4. flokks kvenna er komið áfram eftir góðan sigur á Þrótti í KA heimilinu í gær. Leikurinn var í þokkalegu jafnvægi fyrsta korterið en heimastúlkur þó alltaf skrefinu á undan. Staðan 14-9 í hálfleik.
Í síðari hálfleik héldu KA/Þór stelpur uppteknum hætti og slökuðu hvergi á. Mikil rótering var á liðinu í síðari hálfleik, engu að síður vannst síðari hálfleikur með sama mun, 14-9. Lokatölur 28-18 í fínum handboltaleik.
Una Kara Vídalín fór vægast sagt á kostum í leiknum og virtist getað skorað að vild. Þegar leik lauk hafði hún sett 16 slummur, þar af fimm úr vítum. Næstar í markaskorun voru Kristín með 4, Lísbet 3, Aldís 2, Sigrún Ebba 2 og Helena með 1. Í markinu varði Heiðbjört 11 skot.
Flottur leikur, eitt skref tekið í átt að bikarnum.