Góð uppskera í handboltanum um helgina

Frábær helgi hjá stelpunum í 4. flokki
Frábær helgi hjá stelpunum í 4. flokki

Það er ekki bara keppt á HM í handboltanum þessa dagana en um helgina lék yngra ár 4. flokks kvenna tvívegis gegn Aftureldingu auk þess sem bæði lið 3. flokks karla tóku á móti Haukum.

Stelpurnar í 4. flokknum gerðu sér lítið fyrir og unnu báða leikina um helgina og komu sér af krafti í toppbaráttuna í 2. deildinni. Í fyrri leiknum sem fram fór á föstudag leiddu stelpurnar 15-13 í hálfleik og eftir svakalegar lokamínútur innbirtu þær 24-23 sigur. Sama spennan virtist ætla að vera í seinni leik liðanna en KA/Þór leiddi 13-12 í hálfleik. Hinsvegar stungu stelpurnar af í þeim síðari og unnu á endanum sannfærandi 27-19 sigur.


Strákarnir í B-liði 3. flokks ansi sáttir með sigur helgarinnar

Í gær léku bæði lið 3. flokks karla gegn Haukum í KA-Heimilinu. Mikill hraði var í leik A-liðsins og voru hálfleikstölur hvorki meira né minna en 19-22 fyrir gestina. Á endanum unnu Haukar 32-39 sigur en strákarnir í B-liðinu náðu hinsvegar að hefna fyrir tap A-liðsins með 31-29 sigri eftir að hafa leitt 18-14 í hálfleik.