Góð helgi hjá A liði 4. flokks kvenna

Stelpurnar í 4. flokk kvenna áttu þrjá leiki yfir höfði sér þegar keyrt var til Reykjavíkur á föstudaginn. Einn um kvöldið og tvo á laugardeginum. B liðið fór ekki með að þessu sinni sökum manneklu en þeir leikir verða spilaðir eftir áramót. 


Fyrsti leikurinn var gegn B liði FH í bikarkeppninni. 
Stelpurnar byrjuðu leikinn mjög vel og komust á fyrsta korterinu í 9-0. Þá slökuðu þær heldur mikið á án þess þó að hleypa FH stelpum of nálægt sér. Staðan í hálfleik var 11-2 fyrir KA/Þór og lokatölur voru 24-7 fyrir KA/Þór. 

Stelpurnar spiluðu heilt yfir mjög flotta vörn og báðir markmenn liðsins vörðu virkilega vel. Sóknarleikurinn var góður en mörg markanna komu þó úr hraðaupphlaupum og/eða seinni bylgju. 

Á laugardeginum áttu stelpurnar leiki gegn HK og Fjölni. Fyrri leikurinn var gegn HK og var hann nokkuð svipaður og FH leikurinn. 
Stelpurnar byrjuðu af miklum krafti og náðu góðri forustu strax í byrjun leiks. Í stöðunni 5-0 fyrir KA/Þór fóru þær að slaka á sóknar og varnarlega og hleyptu HK stelpum inn í leikinn. Í stöðunni 7-9 fyrir KA/Þór settu þær aftur í annan gír og juku forustuna í 7-11 fyrir leikhlé. Í seinni hálfleik tóku KA/Þór öll völd á vellinum og lönduðu góðum 15-24 sigri á liði HK. 
Stelpurnar spiluðu virkilega grimma og góða vörn allan leikinn og markvarslan mjög góð. 

Síðasti leikurinn var gegn Fjölni aðeins tveimur tímum eftir að HK leiknum lauk. Stelpurnar voru eðlilega þreyttar en létu það ekki á sig fá og lönduðu mjög góðum 10 marka sigri. Vörn, markvarsla og hröð keyrsla skópu þennan sigur sem stelpurnar geta verið stolltar af. 
Stelpurnar geta þó verið mjög ánægðar með sinn leik. Þær sýndu engin þreytumerki og létu ekki undarlegar aðstæður í formi svívirðinga frá þjálfara Fjölnis slá sig út af laginu. 

Heilt yfir var helgin mjög góð hjá stelpunum. Þær spiluðu virkilega góða vörn og markvarslan í heildina frábær. Þær keyrðu hratt og voru óragar í sókninni. 
Það er mjög erfitt að ætla að taka einhverja eina út og hrósa henni sérstaklega eftir þessa helgi þar sem hver ein og einasta á hrós skilið fyrir sinn þátt í þessum þremur sigrum.  

Nú er mikilvægt fyrir stelpurnar að fylgja þessari helgi eftir með sama krafti og hefur einkennt æfingarnar upp á síðkastið. Næsti leikur gegn Stjörnunni í KA heimilinu 11. desember en stelpurnar eiga harma að hefna eftir að hafa tapað fyrir Stjörnunni í fyrsta leik.