A liðið spilaði um helgina algjöra úrslitaleiki við ÍBV um deildarmeistaratitilinn í 2. deild. Bæði KA/Þór og ÍBV
höfðu haft mikla yfirburði í 2. deildinni í vetur. Þar fyrir utan hafði ÍBV komist alla leið í bikarúrslit þar sem þær
töpuðu gegn Selfoss en KA/Þór hafði dottið út gegn Fylki í 8 liða úrslitum í framlengdum leik. Fylkir og Selfoss verma tvö efstu
sæti 1. deildar nú þegar líða fer að lokum Íslandsmótsins.
Fyrsti leikurinn gegn ÍBV var á föstudagskvöldið klukkan hálf tíu í Austurbergi. Mikill taugatitringur var í stelpunum í leiknum og
spiluðu þær lengst af heldur illa. Mikið af skotum hittu ekki á markið, illa gekk að finna færi og tapaðir boltar voru fleiri í þessum eina
leik heldur en samanlagður fjöldi tapaðra bolta í síðustu sex leikjum liðsins.
Varnarlega gerðu þær sig stundum sekar um slæm mistök en hins vegar má ekki taka það af þeim að þær börðust eins og
ljón og náðu lengst af að halda vörninni nokkuð lokaðri.
Þrátt fyrir að vera nokkuð frá sínu besta tókst stelpunum að landa gríðarlega mikilvægum sigri 17-15. Það sem skildi af
liðin voru vel útfærð hraðaupphlaup og góð markvarsla heilt yfir í öllum leiknum frá markvörðum liðsins.
Í dag, laugardag léku þær síðan tvo leiki í röð gegn ÍBV. Fyrri leikurinn í dag spilaðist að miklu leiti svipað og
leikurinn kvöldið áður, þar er að segja stelpurnar voru stressaðar, nýttu skotin illa en smátt og smátt fór að færast
ákveðin ró yfir stelpurnar og þær fóru að minna á sig. Síðustu fimm mínúturnar í fyrri hálfleik einkenndust af
frekar mikillri óheppni og nettu kæruleysi. Stöngin og sláin átti það til að þvælast heldur mikið fyrir og fráköstin duttu
ekki nægilega vel fyrir KA. KA leiddi þó með einu marki í hálfleik og allt útlit fyrir spennandi leik. Síðari hálfleikur byrjaði
þó eins illa og hann gat byrjað og náði ÍBV fljótlega fimm marka forustu, staðan allt í einu orðin 13-8 fyrir ÍBV. Á þeim
tíma var vörnin hriplek, sóknin rög og upphlaupin slök.
Þegar allt útlit var fyrir að stelpurnar væru að missa leikinn frá sér sýndu þær gríðarlega mikinn karakter og kveiktu á
viljanum og fóru að spila á eðlilegri getu. Vörnin lokaðist algjörlega, sóknin virkilega vel útfærð og hraðaupphlaupin
frábær. Á tólf mínútna kafla skoruðu KA stelpur tíu mörk gegn einu marki ÍBV og breyttu stöðunni í 14-18.
Síðustu mínúturnar var sigurinn í sjálfu sér aldrei í hættu, KA/Þór komst í 20-16 þegar tæpar tvær
mínútur voru eftir af leiknum og lokatölur 21-17 fyrir KA/Þór. Mikill sigurdans var stiginn eftir leikinn en hann mátti þó ekki taka of mikið
af krafti stúlknanna þar sem þær höfðu einungis fimmtán mínútur á milli leikja og þurftu að gíra sig upp fyrir seinni
leikinn.
Þriðji og síðasti leikurinn var því spilaður aðalega upp á stoltið enda skipti hann engu upp á lokastöðuna í
deildinni. Stelpurnar spiluðu þann leik lengst af nokkuð vel miðað við aðstæður. Vörnin góð og sóknin nokkuð léttleikandi
miðað við heldur þreytta skrokka. Þrátt fyrir að leiða leikinn lengst af var niðurstaðan jafntefli, 20-20 þar sem ÍBV jafnaði
þegar 15 sekúndur voru eftir af leiktímanum. Á þessum 15 sekúndum fengu stelpurnar tvö dauðafæri til að stela sigrinum en það gekk
ekki þann daginn.
Þrátt fyrir að þetta voru kannski ekki bestu tilþrifin sem stelpurnar hafa sýnt í vetur þá voru þetta svo sannarlega þau
mikilvægustu. Þær stigu upp þegar á reyndi og kláruðu verkefnið með sóma. Þær hafa tekið gríðarlega miklum
framförum í vetur og eru til alls líklegar í úrslitakeppninni en mótherjar þeirra í 8 liða úrslitum verða að öllum
líkindum Selfoss eða Fylkir sem eru um þessar mundir að berjast um deildarmeistaratitilinn í 1. deild.
B liðið spilaði einnig í Reykjavík núna um helgina.
Á föstudagskvöldið spiluðu þær gegn liði Hauka sem nýverið hömpuðu deildarmeistaratitlinum í 2. deild b liða. Leikurinn
var í járnum lengst af en Haukar höfðu þó yfirhöndina frá byrjun þrátt fyrir að munurinn var aldrei mikill. Svo fór að
Haukar náðu að landa tveggja marka sigri þrátt fyrir harða mótspyrnu frá norðanstúlkum.
Á laugardeginum spiluðu stelpurnar gegn liði Fram í Safamýrinni. KA/Þór byrjaði leikinn af miklum krafti og skoruðu þær
þrjú fyrstu mörk leiksins. Við það vöknuðu Fram stúlkur og fóru að saxa á forskotið og náðu að jafna um miðbik
fyrri hálfleiks. Þá fóru tíð mistök að láta á sér kræla hjá norðanstúlkum og hausinn sökk ofan
í bringu. Ekkert gekk upp og fýlan hreinlega lak af þeim. Fyrir vikið náðu Fram stúlkur fimm marka forustu rétt fyrir hálfleik og hefðu
í raun getað verið meira yfir.
Í hálfleik var ákveðið að rífa sig upp og byrja leikinn upp á nýtt, ná fram leikgleði og baráttu. Sú hugarfarsbreyting
skilaði sér því þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum komust KA/Þór stúlkur yfir eftir vel útfært
hraðaupphlaup. Síðustu tíu mínúturnar voru æsispennandi þar sem liðin skiptust á að skora og komast yfir. Þegar
mínúta var eftir var Fram í sókn og staðan jöfn. Þær náðu að koma sér í ákjósanlegt færi en
markmaður KA/Þórs gerði sér lítið fyrir og greip boltann. KA/Þór geystist upp í sókn sem skilaði marki þegar 20
sekúndur voru eftir og þrátt fyrir tilraunir Fram stúlkna til að næla sér í annað stigið náðu stelpurnar að landa
glæsilegum sigri.
Ef frá er talinn tíu mínútna kafli í fyrri hálfleik gegn Fram spiluðu stelpurnar heilt yfir mjög vel. Fleiri og fleiri eru farnar að
stíga upp og taka af skarið þegar þess gerist þörf. Upphaflegt markmið B liðsins var að stuðla að auknum framförum hjá
liðsmönnum þess og láta þær sem áður höfðu haft lítið hlutverk í sínu liði fá auknar skyldur inn á
vellinum. B liðið hefur vaxið mikið sem lið í vetur og einstaklingsbundinn árangur virkilega jákvæður. Fyrir utan þær stelpur sem eru
í 4. flokk hafa stelpur úr 5. flokk fengið að spreyta sig með þeim í leikjum og hefur frammistaða þeirra farið fram úr björtustu vonum
og ljóst að þar eru á ferðinni gríðarlega efnilegar stelpur.
Nú hafa stelpurnar í B liðinu lokið keppni þennan veturinn. Margar þeirra eru að stíga sín fyrstu skref í handboltanum og
árangur vetrarins því mjög ánægjulegur. Framfarirnar hafa verið gríðarlegar hjá nokkrum leikmönnum og ef þær halda
áfram á þessari braut og eru duglegar að æfa eru þær til alls líklegar.
Stelpurnar eru þó ekki alveg búnar þar sem þær munu koma inn í A liðshópinn fyrir úrslitakeppnina og leggja sín lóð
á vogarskálina í þeim slag.