Um helgina fór fram þriðja mót tímabilsins af fimm hjá eldra ári 5. flokks drengja og var leikið í Kaplakrika og íþróttahúsinu í Strandgötu í Hafnarfirði en FH hafði umsjón með þessu móti. KA var með tvö lið í mótinu, KA1 spilaði í 1. deild en KA2 í þriðju deild.
Auk KA1 léku í 1. deild FH1, Haukar1, Selfoss1 og HK1. KA strákarnir byrjuðu með stórsigri á Haukum, 18-9, næsti leikur var gegn HK sem vannst líka sannfærandi 13-8. Þeir misstigu sig síðan gegn Selfyssingum en sá leikur tapaðist 13-15 þannig að lokaleikurinn gegn FH varð hreinn úrslitaleikur. Sá leikur var frábær handbolti og unnu KA strákarnir að lokum eins marks sigur, 14-13 og unnu þar með mótið. Lokastöðuna og úrslit allra leikja í 1. deild má sjá hér að neðan.
Í frábærri liðsheild hjá KA strákum vöktu markverðirnir þó sérstaka athygli en þeir Ágúst Elvar Ágústsson og Frosti Brynjólfsson voru tveir bestu markverðir mótsins. Þeir skiptu leikjunum bróðurlega á milli sín og stóðu sig báðir með afbrigðum vel.
KA1 hefur nú unnið tvö af þremur mótum og eiga góðan möguleika á að hreppa Íslandsmeistaratitilinn í vor.
KA2 léku í 3. deild ásamt KR2, Víkingum, HK2 og Selfoss2. Skemmst er frá því að segja að KA2 unnu alla leikina sannfærandi og þar með deildina og reyndust vera með yfirburðalið.
Strákarnir í KA2 stíga sigurdans í mótslok. Myndir: Maron Pétursson
Stöðuna og úrslit leikja í 3. deild má sjá hér að neðan.
Frábær frammistaða hjá strákunum og verður spennandi að fylgjast með þeim á komandi árum. Tvö mót eru eftir hjá þeim á þessu tímabili, helgina 14.-16. mars í Mosfellsbæ og helgina 25.-27. apríl í Kópavogi.