Stúlkurnar í KA/Þór leika gegn Aftureldingu í Olís-deild kvenna á laugardaginn í KA-heimilinu. Leikurinn hefst klukkan 13.30 en það verður mikið húllumhæ í félagsheimili KA-manna fyrir leik. Frítt er á völlinn og eru allir hvattir til þess að mæta og styðja stelpurnar.
KA/Þór hóf leik í deildinni síðustu helgi þar sem þær léku gegn Selfossi á útivelli. Sá leikur tapaðist með einu marki en sigurinn hefði auðveldlega getað dottið með KA/Þór. Liðinu var spáð neðsta sætinu í deildinni en Aftureldingu því næst neðsta og er því um gríðarlega mikilvægan leik að ræða.
Liðið fékk á dögunum liðsauka frá Danmörku en stúlka að nafni Simone Antonia Pedersen samdi við liðið en hún hefur meðal annars leikið með Randers í Danmörku sem tók þátt í Evrópukeppninni fyrir ári síðan.