Það er ýmislegt í gangi um helgina hjá handboltafólkinu okkar, jafnt á heimavelli sem útivelli. Hér heima byrjar fjörið klukkan 13:45 á laugardaginn þegar meistaraflokkur KA/Þór tekur á móti Fram U í Grill 66 deild kvenna. KA/Þór er í góðri stöðu á toppi deildarinnar með 19 stig eftir 10 leiki en Fram U er með 4 stig eftir ellefu leiki.
Strax á eftir er komið að leikjum hjá stelpunum í 3. flokki KA/Þór. Klukkan 15:15 er komið að leik hjá KA/Þór 2 gegn Fram 3 en sá leikur er í 2. deild 3. flokks kvenna.
Þar á eftir eða klukkan 16:30 mætast félögin í 1. deild 3. flokks kvenna þ.e.a.s. KA/Þór Fram. Það er því óhætt að segja að það sé kvennadagur í KA heimilinu á laugardaginn.
Meistaraflokkur karla spilar erfiðan útileik gegn Haukum U í Grill 66 deild karla á laugardaginn. Sá leikur hefst klukkan 16:15 í Schenkerhöllinni í Hafnarfirði. Við hvetjum stuðningsmenn á stór-Hafnarfjarðarsvæðinu til að koma á leikinn og styðja strákana í toppbaráttu deildarinnar. Nú er ljóst að leikurinn verður í beinni útsendingu á KA-TV í dag, fylgist með á Youtube rásinni okkar þegar líða fer að leiknum.
Ungmennalið KA verður líka á suðvesturhorninu um helgina og spilar tvo leiki í 2. deild karla. Klukkan 19:00 á laugardaginn mæta þeir Fjölni U í Íþróttamiðstöðinni að Dalhúsum í Grafarvoginum. Strákarnir eiga svo leik á sunnudaginn, klukkan 13:30 gegn Gróttu U á heimavelli þeirra í Hertz höllinni á Seltjarnarnesi.
Eldra og yngra ár 4. flokks karla eiga síðan tvo heimaleiki á sunnudaginn. Klukkan 14:00 tekur eldra ár á móti HK og er sá leikur í 1. deild Íslandsmótsins hjá eldra ári. En þess ber að geta að KA situr í efsta sæti deildarinnar með fullt hús stiga, 16 stig eftir átta leiki en HK er ekki langt undan með 12 stig eftir níu leiki.
Yngri lið sömu félaga mætast strax á eftir, eða klukkan 15:15 en sá leikur er liður í 1. deild yngra árs. Liðin eru á svipuðu róli í deildinni, KA með 6 stig eftir tíu leiki en HK með 4 stig, einnig eftir tíu leiki.
Leik KA og Fram í 3. flokki karla sem var fyrirhugaður í KA heimilinu klukkan 12:30 á sunnudaginn hefur verið frestað að ósk Fram.
En allavega þá er af nógu að taka og ljóst að stuðningsmenn KA og KA/Þór hafa ýmislegt til að fylgjast með um helgina.