Flýtilyklar
Fram skellti KA/Þór í Safamýrinni
KA/Þór sótti ógnarsterkt lið Fram heim í dag í Olís deild kvenna. Leikurinn var fyrsti leikurinn í annarri umferð deildarinnar en fyrir leikinn var Fram í 2. sæti með 12 stig en KA/Þór í 4. sæti með 8 stig. Fyrirfram var búist við ansi erfiðu verkefni og það varð svo sannarlega raunin.
Stelpurnar reyndar byrjuðu betur og komust í 1-3 á upphafsmínútunum og leiddu áfram í stöðunni 4-5 eftir tæpar tíu mínútur. Er fyrri hálfleikur var hálfnaður var staðan 7-6 fyrir Fram en þá hrökk allt í baklás og heimakonur gjörsamlega keyrðu yfir stelpurnar.
Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 21-10 og öll spenna farin úr leiknum. Til að halda í við lið eins og Fram í 60 mínútur þarf í raun allt að ganga upp enda refsar liðið strax fyrir mistök og þarna lenti okkar lið einfaldlega á vegg.
Heimakonur héldu áfram að keyra á okkur í upphafi síðari hálfleiks og gerðu fyrstu 9 mörk hálfleiksins. Staðan var því orðin 30-10 þegar stelpurnar komu sér loksins á blað. Fór svo að lokum að Fram vann 43-18 stórsigur og ljóst að okkar lið vill gleyma þessum leik sem allra fyrst.
Martina Corkovic var markahæst í okkar liði með 7 mörk, þar af eitt úr víti, Martha Hermannsdóttir gerði 3, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2, Aldís Ásta Heimisdóttir 1, Ásdís Guðmundsdóttir 1, Svala Björk Svavarsdóttir 1, Rakel Sara Elvarsdóttir 1, Katrín Vilhjálmsdóttir 1 og Arna Valgerður Erlingsdóttir 1 mark.
Matea Lonac varði 2 skot í leiknum og Selma Sigurðardóttir Malmquist tókst ekki að verja skot. Vissulega vill maður fá fleiri varin skot en það verður líka að líta til þess að varnarleikur liðsins var einnig slakur og því fór sem fór.
Fyrir leikinn voru stelpurnar búnar að vinna þrjá leiki í röð og vonandi að þær nái að setja þennan leik til hliðar og halda áfram sama dampi og hefur verið í leikjunum þar á undan. Næsti leikur er heimaleikur 15. nóvember gegn Stjörnunni en Garðbæingar eru sæti ofar í deildinni og ljóst að þar eru ansi mikilvæg stig í húfi.