Fram sigraði KA/Þór með átta mörkum í leik liðanna í N1 deildinni í gær. Leikurinn fór ágætlega af stað og jafnt á fyrstu tölum, Frida varði vítakast í stöðunni 2-2. Fram liðið sýndi í framhaldinu að það er ekki tilviljun að þær eru á toppi deildarinnar. Einhvernveginn virtist þó sem að flestar KA/Þór stelpnanna hefðu ekki alveg trú á að þær ættu möguleika í leiknum, það voru eiginlega bara Ásdís Sigurðardóttir og Martha Hermannsdóttir sem börðust í sóknarleiknum og skutu á markið.
Fram náði sjö marka forystu á skömmum tíma , mörg markanna komu úr hraðaupphlaupum en heimastúlkur klóruðu í bakkann en
nokkur ódýr mörk í lok hálfleiksins skiluðu Fram liðinu sex marka forystu í hálfleik 11 – 17.
Seinni hálfleikur var í svipuðum dúr, Fram liðið með örugg tök á leiknum þó að markamunurinn sveiflaðist nokkuð.
Ásdís og Martha héldu uppteknum hætti en Katrín Vilhjálmsdóttir barðist vel í sóknarleiknum. Þórdís
Sigurbjörnsdóttir kom með tvö góð mörk undir lokin og Erla Hleiður fann leiðina framhjá markverði Fram af vítalínunni. Frida
Petersen átti fínan leik í markinu, varði m.a. þrjú vítaköst og fjölmörg dauðafæri með tilþrifum.
Lokatölur urðu átta marka sigur Fram, 20 – 28.
Mörk KA/Þór: Ásdís Sigurðardóttir 8, Martha Hermannsdóttir 5, Erla Hleiður Tryggvadóttir 2, Þórdís
Sigurbjörnsdóttir 2, Katrín Vilhjálmsdóttir 1, Kolbrá Ingólfsdóttir 1 og Kolbrún Einarsdóttir 1 mark.
Frida stóð í markinu allan tímann og varði 15 skot, þar af 3 vítaköst eins og áður segir.
Mörk Fram: Elísabet Gunnarsdóttir 10, Stella Sigurðardóttir 5, Ásta Birna Gunnarsdóttir 4, Hafdís Lura, Marthe Sördal og Sunna Jónsdóttir 2 mörk hver, Anett Köbli , Hekla Rún Ámundardóttir og Steinunn Björnsdóttir 1 mark hver.
Þórir Tryggvason var á staðnum með myndavélina og sendi okkur myndasyrpufrá leiknum sem hægt er að skoða hér.
Sigrar hjá 3. flokki og 4. flokki
KA/Þór og Fram mættust fyrr um daginn í 3. flokki kvenna og þar fór KA/Þór
með góðan fjögurra marka sigur, 18 - 14.
Á föstudaginn unnu stelpurnar í 4. flokki sinn leik í undanúrslitum bikarkeppninnar og eru þar með komnar í bikarúrslitaleikinn.