Frábær Reykjavíkurferð hjá yngra ári 5. flokki kvenna - mynd

Yngra ár 5. flokks kvenna renndi suður á föstudagsmorgunn til að keppa á sínu öðru móti til Íslandsmeistara þennan veturinn. Líkt og síðast voru tvö lið skráð til keppni, KA/Þór1 og KA/Þór2.
KA/Þór1 vann sér á síðasta móti þátttökurétt í 1. deild og því ljóst að þær voru að fara að keppa við bestu liðin í sínum árgang í þessari ferð.

Fyrsti leikurinn var gegn liði Fram og þrátt fyrir að leikurinn hefði verið jafn framan af sigu Fram stelpur fram úr á lokamínútunum og unnu öruggan sigur. KA/Þór1 náði aldrei að koma sér í takt við leikinn og voru hreint út sagt langt frá sínu besta í þeim leik.
Þær notuðu þó pásuna á milli leikja til að taka sig saman í andlitinu og mættu talsvert sterkari í næsta leik sem var gegn Íslandsmeisturum þessa árgangs frá því í fyrra, ÍR. Sá leikur var virkilega vel spilaður og höfðu norðanstúlkur virkilega góð tök á leiknum og unnu að lokum sannfærandi sigur. Frá og með þessum leik litu þær aldrei til baka og kláruðu mótið með stæl og unnu ÍBV, HK og Aftureldingu nokkuð þægilega. Niðurstaðan því 2. sæti í 1. deild sem er hreint út sagt frábær árangur.

Ef frá er talinn fyrsti leikurinn gegn Fram spiluðu stelpurnar frábærlega á þessu móti. Þær hafa unnið markvisst að því frá síðasta móti að bæta sóknina og byggja ofan á frábæra vörn og markvörslu ásamt því að eiga í vopnabúrinu vel útfærð hraðaupphlaup sem þær nýta óspart.



KA/Þór2 lék líkt og á síðasta móti í neðstu deildinni. Á síðasta móti fengu þær nokkuð slæma útreið gegn öðrum liðum enda margar að stíga sín fyrstu skref í handbolta og fyrir það mót var ákveðið að horfa ekki á stigatöfluna heldur frekar nýta mótið í að læra. Eftir það mót hafa þær æft af miklum krafti og lagt sig fram á æfingum. Þær uppskáru svo sannarlega nú um helgina en það er skemmst frá því að segja að þær unnu alla þrjá leikina sína nokkuð örugglega og höfnuðu í 1. sæti í 4. deild og fengu að sjálfsögðu bikar og gullpeninga að launum. Sökum forfalla voru fengnar að láni tvær stelpur úr 6. flokk og stóðu þær sig vægast sagt eins og hetjur líkt og liðið í heild. 
 
Baráttan sem býr í þessum hóp er til fyrirmyndar, þær hika ekki við að henda sér á lausa bolta, slást um hvern einasta fersentimetra og bakka aldrei undan mótherjanum. Þær láta ekki smá pústra á sig fá og sýna einstakan sigurvilja í bland við yfirgengilega mikla leikgleði.
Frá síðasta móti hafa þær æft virkilega vel, lagt sig fram á æfingum og sýnt mikinn metnað og það hefur skilað þeim hingað.

Nú þýðir þó ekkert að slaka á. KA/Þór1 er kominn á þann stall að hin liðin munu keppast um að vinna þær og KA/Þór2 mun spila í erfiðari deild þannig að þeirra bíður ærið verkefni í næsta móti. Það er þó klárt mál að ef þær halda áfram á sömu braut og bæta jafnvel aðeins við á æfingum getur ekkert stoppað þær.

Kv. þjálfarar.