Flýtilyklar
Frábær heimasigur á FH staðreynd
KA tók á móti FH í Olís deild karla í dag en fyrir leikinn voru FH-ingar í toppbaráttunni með 11 stig og höfðu ekki tapað síðustu fimm leikjum sínum. KA liðið var hinsvegar enn í leit að fyrsta heimasigri sínum í vetur og má með sanni segja að strákarnir hafi verið staðráðnir í að sækja hann í dag.
Daði Jónsson varnarjaxl glímdi við meiðsli og var því ekki með í dag og snemma leiks meiddist Áki Egilsnes og voru því skörð höggin í lið KA. En strákarnir létu það svo sannarlega ekki á sig fá og þeir byrjuðu mikið mun betur. KA gerði fyrstu þrjú mörk leiksins og lét forystuna aldrei af hendi.
KA liðið komst mest fimm mörkum yfir í fyrri hálfleik og leiddi verðskuldað 18-14 er liðin gengu til búningsherbergja sinna. Leikurinn var hraður og skemmtilegur og ljóst að verkefninu var hvergi nærri lokið enda FH með hörkulið.
Það tók gestina ekki langan tíma að koma sér aftur inn í baráttuna í seinni hálfleik og eftir um fimm mínútur af síðari hálfleik var forysta KA aðeins eitt mark. Stemningin í KA-Heimilinu var frábær og stuðningurinn hjálpaði liðinu klárlega að verja forskotið næstu mínúturnar og stöðva áhlaup FH liðsins.
Er kortér lifði leiks var staðan 23-22 og svakaleg spenna í loftinu en þá keyrðu strákarnir yfir FH liðið og gerðu næstu fimm mörk leiksins. Eftir þetta var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda þó gestirnir hafi vissulega ekki gefið neitt eftir. Að lokum vannst 31-27 sigur og gífurleg fagnaðarlæti brutust út.
Varnarleikurinn var algjörlega til fyrirmyndar og voru gestirnir í miklum vandræðum með að leysa hana auk þess sem að Jovan Kukobat var vel á verði í markinu. Sóknarleikurinn flottur og er komið allt annað tempó í spil liðsins sem er að skila mun beittari sóknarleik og í kjölfarið verða fleiri hornafæri til sem okkar öflugu hornamenn eru að nýta vel.
Fyrsti heimasigur vetrarins staðreynd og strákarnir eru nú komnir með 9 stig og hoppa að minnsta kosti tímabundið í 6. sæti deildarinnar. Það býr gífurlega mikið í liðinu okkar og það er gríðarlega jákvætt að horfa til þess hve margir uppaldir KA strákar eru að draga vagninn hjá okkur.
Þá er hluti stuðningsmanna KA mikill og klárt mál að þegar strákarnir mæta klárir og húsið er í þessum gír eiga fá lið möguleika gegn okkur í KA-Heimilinu.
Dagur Gautason var markahæstur með 9 mörk, Jóhann Einarsson 7, Daníel Örn Griffin 4, Jón Heiðar Sigurðsson 3, Patrekur Stefánsson 3, Daníel Matthíasson 2, Andri Snær Stefánsson 1, Áki Egilsnes 1 og Allan Norðberg 1 mark. Í markinu varði Jovan Kukobat 13 skot og var með 33% markvörslu.
Næsti leikur er gegn Val fyrir sunnan á miðvikudaginn og eiga strákarnir klárlega að mæta með kassann út í þann leik enda hefur spilamennskan í síðustu leikjum verið frábær.