Síðastliðinn laugardag, 20. desember, komu stelpurnar í Fram í heimsókn í KA-heimilið. Fyrir leikinn var búist við hörkuleik en Fram sat í 4. sæti deildarinnar með 12 stig á meðan KA/Þór var ögn neðar, eða í 7. sætinu með 7 stig.
Leikurinn var í járnum í fyrri hálfleik þar sem sóknarleikur beggja liða var í fyrirrúmi og lítið var um varnarleik. Hjá Fram var það Ragnheiður Júlíusdóttir, einn efnilegasti leikmaður landsins, sem lék á alls oddi og skoraði nánast af vild á meðan Arna Kristín og Birta Fönn voru atkvæðamestar hjá heimastúlkum. Fram var ávallt skrefi á undan og leiddi lengst af í fyrri hálfleik með 1-2 mörkum en staðan í hálfleik var 16-18 Fram í vil.
Síðari hálfleikur fór af stað rétt eins og sá fyrri hafði endað. Fram leiðir leikinn fyrstu mínúturnar en þó nær KA/Þór alltaf að halda sér inní dæminu með öflugum sóknarleik. Þegar um stundarfjórðungur lifir leiks þá leiðir Fram í stöðunni 20-23 og ákveða þjálfarar norðanstúlkna að hrista upp í þessu með því að breyta vörninni hjá liðinu. Þessi ákvörðun þeirra pilta gekk fullkomlega upp og náðu stelpurnar góðum 4-1 kafla og jöfnuðu leikinn í 24-24 og um tíu mínútur eftir. Varnarleikurinn gekk vel og Sunna Guðrún tók uppá því að læsa rammanum og gleypa lykilinn. Stelpurnar sigu hægt og rólega framúr og komust 2 mörkum yfir í stöðunni 27-25. Sóknarleikurinn gekk áfram vel og skoruðu stelpurnar mikilvæg mörk ásamt því að Sunna hélt uppteknum hætti og m.a. varði 2 vítaköst frá Ragnheiði í Fram. Því fór svo að stelpurnar uppskáru frábæran baráttusigur, 31-28 á gríðarlega sterku liði Fram, sem hefur á undanförnum árum sigrað flesta bikara sem í boði eru.
Gríðarlega flottur sigur hjá stelpunum þrátt fyrir að það hafi vantað nokkra sterka leikmenn í liðið vegna veikinda og meiðsla og að einhverjir af þeim sem spiluðu voru ekki 100% vegna meiðsla. Þetta sýnir hversu gríðarlega öflugt unglingastarf er í gangi hjá KA/Þór.
Markaskor KA/Þór:
Arna Kristín Einarsdóttir 11, Birta Fönn Sveinsdóttir 7, Helena Halldórsdóttir 3, Una Kara Vídalín 3, Aldís Ásta Heimisdóttir 2, Aldís Anna Höskuldsdóttir 2, Ásdís Guðmundsdóttir 2 og Kolbrún María Bragadóttir 1.
Í markinu varði Sunna Guðrún Pétursdóttir 17 skot.