Flottur baráttusigur á Þór í 3. flokki

Strákarnir voru sigurreifir í leikslok
Strákarnir voru sigurreifir í leikslok

KA tók á móti Þór í 3. flokki karla í kvöld en fyrir leikinn var KA á toppnum með fullt hús stiga eftir þrjá leiki en Þór á botninum án stiga eftir fjóra leiki. En í nágrannaslögum liðanna skiptir deildarstaðan engu og það varð heldur betur raunin í kvöld.

Þórsarar byrjuðu betur og leiddu með fjórum til fimm mörkum í upphafi. En þegar leið á leikinn fundu strákarnir sig betur og þeir minnkuðu muninn í 13-15 sem voru hálfleikstölur. Flott stemning myndaðist í KA-Heimilinu og ljóst að hart yrði barist bæði innan sem utan vallar um montréttinn í bænum.

Mikil spenna var í síðari hálfleiknum og mátti vart sjá hvoru megin sigurinn myndi enda. En þegar mest á reyndi steig KA liðið upp og með frábærum karekter sneru þeir leiknum sér ívil og komust í 25-21 þegar níu mínútur lifðu leiks. Það forskot tókst Þórsurum aldrei að brúa og KA vann að lokum 29-26 baráttusigur.

Strákarnir eru því áfram með fullt hús stiga og eiga nú montréttinn þar til liðin mætast öðru sinni eftir nokkrar vikur.