Fjórði flokkur KA/Þór með góðan árangur

Fjórði flokkur kvenna hefur spilað síðustu tvær helgar með góðum árangri.

Um síðustu helgi spiluðu öll þrjú liðin við lið ÍR. Sigur var staðreynd í öllum þremur leikunum og sérstaklega ánægjulegt að þar var lið KA/Þór2 á yngra ári að vinna sinn annan leik í vetur. En fyrsti sigurinn kom gegn Stjörnunni á heimavelli í byrjun janúar. Sigrarnir voru sérstaklega ánægjulegir í ljósi þess að þessi lið áttust við í byrjun vetrar þar sem ÍR og Stjarnan fóru með einstaklega léttan sigur af hólmi. Framfarirnar hjá stelpunum hafa verið gríðarlegar og eru þær loksins farnar að uppskera eins og þær hafa sáð síðustu ár.

KA/Þór1 vann ÍR í ágætis leik og eldra árið sömuleiðis í leik sem seint verður talinn góður handboltaleikur, en sigur er sigur. Það kastaði þó ákveðnum skugga á helgina að Ásdís Guðmundsdóttir viðbeinsbrotnaði í leik með 3. flokk eftir harkalega bakhrindingu og óvíst með framhaldið hjá henni. Bæði er þetta mikil blóðtaka fyrir liðið en verst er þetta þó fyrir hana þar sem hún var nýbúin að vinna sér inn sæti í landsliðinu og hefur verið að spila stórkostlega það sem af er vetri.

Það var því ekki alveg ljóst hvernig stelpurnar myndu mæta til leiks gegn Gróttu í deildinni síðasta laugardag. Sem betur fer býr 4. flokkurinn vel að því leitinu til að eldra árið er ógnarsterkt og ekki er yngra árið neinn eftirbátur í þeim efnum. Aldís Heimisdóttir, miðjumaður í yngra árs liðinu var því munstruð upp í skyttuna fyrir Gróttu leikinn. Það er óhætt að segja að stelpurnar hafi brugðist hreint út sagt stórkostlega við þessu mótlæti og spiluðu frábæran handboltaleik gegn Gróttu. Sunna Pétursdóttir fór hamförum í markinu, Aldís Heimisdóttir fiskaði hvorki meira né minna en níu víti og skoraði fjögur mörk en senunni stal örvhenta undrið, Þórunn Sigurbjörnsdóttir. Þórunn tók 21 skot í leiknum og skoraði úr þeim 18 mörk, þar af níu úr vítum en hún nýtti öll vítaköstin sem hún tók.

Á sunnudeginum spiluðu stelpurnar á eldra árinu gegn Selfoss og unnu þar sannfærandi tíu marka sigur þar sem markaskorunin var öllu jafnari þó Þórunn hafi vissulega verið markahæst með 9 mörk en næstar á eftir henni komu Aldís Heimisdóttir og Kolbrún María Bragadóttir með 5 mörk hvor.

KA/Þór1 á yngra ári spilaði einungis einn leik um helgina, gegn Fjölni á föstudagskvöldið. Þar sýndu þær mátt sinn og unnu sterkt lið Fjölnis 18-26. Markvarsla, vörn og hraðaupphlaup ásamt öguðum sóknarleik gerðu það að verkum að sigurinn var aldrei í hættu jafnvel þó Una Kara Vídalín stórskytta og lífskúnstner hefði misstigið sig illa eftir einungis 15 mínútna leik.

KA/Þór2 átti síðan frekar erfitt leikjaprógram fyrir höndum. Tvö bestu lið deildarinnar voru mótherjarnir og því ljóst að brekkan yrði mikil. Í leiknum gegn Þrótt var fyrri hálfleikurinn hjá stelpunum jafn lélegur og seinni hálfleikurinn var góður en lélegur fyrri hálfleikur varð þeim að falli og fimm marka tap raunin. Selfoss leikurinn var síðan hálf ósanngjarn ef satt skal segja. Selfoss er með virkilega sterkt lið sem mundi sóma sig vel í 1. deildinni og sáu norðanstúlkur aldrei til sólar í leiknum. Þær börðust allan leikinn og vörnin var góð og Heiðbjört Guðmundsdóttir í markinu fyrir aftan virkilega góð en stórar og sterkar Selfoss stelpurnar voru nokkrum númerum of stórar þennan daginn.

Eftir helgina deilir KA/Þór1 á yngra ári 1. sætinu með ÍBV en bæði lið eru taplaus enn sem komið er. Eldra árið er í 2. sæti en hefur spilað fæsta leiki í deildinni og getur því saxað vel á forskotið sem Fjölnir hefur náð sér í.

KA/Þór2 situr í næst neðsta sæti með tvo sigurleiki og stefna að sjálfsögðu á að bæta við sig stigum fyrir lok vetrar.

Bæði yngra og eldra árið eru komin í undanúrslit bikars en dregið var á dögunum í Coca Cola bikar yngri flokkana.

Eldra árið fékk hina fornu fjendur í HK á meðan yngra árið fékk stolt Breiðholtsins í drættinum, ÍR. Hamingja ríkir á meðal liðanna að báðir leikirnir verða spilaðir hér heima, mikill lukkudráttur þar á ferð!

Eldra árið spilar miðvikudaginn 26. febrúar klukkan 17:20 í KA heimilinu gegn HK en ekki er búið að ákveða leikdag á yngra árinu. Það er því um að gera að taka dagana frá og garga stelpurnar inn í bikarúrslitin.

Þjálfarar