Það er komið að næsta heimaleik í handboltanum þegar KA tekur á móti ÍBV klukkan 16:00 í Olís deild karla. Það var hrikalega gaman á síðasta heimaleik þegar strákarnir lögðu FH og við þurfum aftur á ykkar magnaða stuðning að halda í dag kæru KA-menn!
Leikur dagsins er liður í 11. umferð deildarinnar og verður deildin því hálfnuð að leik loknum. Fyrir leikinn er KA í 8. sæti með 9 stig en ÍBV er í 6. sæti með 11 stig og má því með sanni segja að leikur dagsins sé fjögurra stiga leikur.
Strákarnir eru staðráðnir í að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni í vor og ekki nokkur spurning að hvert einasta stig mun vega þungt í lok vetrar. Við þurfum að fylgja á eftir mögnuðum heimasigri á FH á dögunum og tryggja eins mörg stig og hægt er á heimavelli. Hlökkum til að sjá ykkur í stúkunni og áfram KA!
Fyrir þá sem ekki komast á leikinn verður hann í beinni á KA-TV og er hægt að nálgast útsendinguna hér fyrir neðan.