Fínasta ferð suður hjá 4. flokki kvenna um helgina

Lagið meiðslalistinn kom upp í huga þjálfara fyrir helgina þar sem meiðsli svo sem puttabrot, handabrot og ökklabrot eru að hrjá nokkrar stúlkur. Ekki vænkaðist svo hagur flokksins þegar ein bættist við með snúinn ökkla eftir píptest í skólanum. Þar fyrir utan voru fimm stúlkur fjarverandi út af skólaferðalagi og öðru. Það var því lágmarksfjöldi þriggja liða sem steig upp í rútuna á fallegum laugardagsmorgni með þrjár hressar stelpur úr 5. flokki að láni.


Á laugardegi áttu öll þrjú liðin leik gegn ÍR í Austurbergi enda ÍR einnig með þrjú lið. Fyrst áttust við lið ÍR og KA/Þór í 1. deildinni. Lið KA/Þórs1 endaði í öðru sæti á Íslandsmótinu í fyrra og hafa í sínum röðum virkilega sterkan hóp. Það var þó heldur þunnskipaður hópur sem hóf leikinn sökum meiðsla. Örvhenta sleggjan Lísbet Gestsdóttir var handabrotin eftir að hafa lent á grjótmulningsvélinni Ásdísi Guðmundsdóttur leikmanni eldra árs á æfingu viku áður. Ef það var ekki nóg var Aldís Heimisdóttir leikstjórnandi með meiru puttabrotin eftir títtnefnda Ásdísi. Eða það er ekki staðfest að það hafi verið Ásdís en hugsanlega.

Jafnt var framan af en KA/Þór náði góðri forustu þegar leið á leikinn og allt útlit fyrir þægilegan sigur. Þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum leiddu norðanstúlkur með sex mörkum en féllu í þá gryfju að ætla að fara að halda. Sofandaháttur í vörninni og algjört frost hinum meginn gerðu það að verkum að ÍR stelpur ná að jafna þegar tæp mínúta er eftir. Þá loksins náðu KA/Þór stelpur að brjóta ísinn og skoraði Margrét Árnadóttir stórglæsilegt mark af línunni með þrjár ÍR stelpur á bakinu. Hinum meginn hélt vörnin síðan og stelpurnar unnu skemmtilegan eins marks sigur. Sérstaklega sætur sigur í ljósi þess að í liðið vantaði tvær sterkar stelpur. Óhætt er að segja að Una Kara Vídalín hafi farið á kostum í þessum leik en hún skoraði 12 af 14 mörkum KA/Þórs auk þess að vera sterk í vörninni. Hún gekk þó heldur lemstruð af velli enda búið að reyna allt í bókinni til að stoppa hana.

Næst spilaði KA/Þór2 við ÍR2 í 2. deild. Leikurinn spilaðist vægast sagt ekkert sérstaklega vel og léku stelpurnar langt undir getu. Þær tóku sig á síðustu sjö mínúturnar í fyrri hálfleik og skoruðu fimm mörk gegn engu og löguðu stöðuna aðeins. Hins vegar féll allt í sama farið í seinni hálfleik og ÍR vann öruggan 12 marka sigur. Það er samt langt frá því að vera sá getumunur sem er á liðunum. ÍR stelpurnar nýttu bara færin sín vel og spiluðu af sjálfstrausti. KA/Þór2 getur vel spilað fínan handbolta og sýndu það á þessum kafla í fyrri hálfleik. Þegar þær hættu að vera ragar og hikandi gekk þetta vel upp hjá þeim. Hins vegar misstu þær hausinn of auðveldlega og gerðu sig sekar um allt of mikið af einstaklingsmistökum. Sem dæmi má taka að fjögur víti fóru forgörðum og sendingar í lappir voru full algengar. Það er hins vegar engin endalok hjá þeim að spila illa. Þær eiga að nota leikina til að læra, fá sjálfstraust og þora að gera það sem þær gera vel á æfingum.

Eldra árið rak svo lestina gegn ÍR sem í umferðinni áður höfðu unnið stórsigur gegn Íslandsmeisturum HK. Heldur tæpur mannskapur var til staðar hjá eldra árinu þar sem hornamennirnir þrír voru allir fjarverandi sökum meiðsla og annara þátta. Því þurfti að fá lánaða leikmenn af yngra ári sem rétt áður höfðu spilað erfiðan leik.
ÍR byrjaði mun betur og náði 5-1 forustu. Þá fengu KA/Þór stelpurnar nóg og tóku úr fyrsta gír. Vörnin small saman og sóknin var eins og vel smurð vél. Í hálfleik hafði KA/Þór tveggja marka forustu og máttu vel við una. Í seinni hálfleik var engin Liverpool taktík tekin á þetta og gefið í. Vörnin var sett af stað og fyrir vikið skoruðu þær þægileg mörk úr hraðaupphlaupum. Að lokum endaði þetta með 7 marka sigri KA/Þór sem miðað við enga breidd í hópnum sökum meiðsla var vægast sagt stórkostlegt.

Á sunnudeginum spilaði eldra árið við Fylki sem er eitt af toppliðunum í deildinni. Eftir slaka byrjun daginn áður höfðu stelpurnar lært sína lexíu og þær gættu þess að láta það ekki gerast aftur. Jafnt var á öllum tölum til að byrja með en þegar stelpurnar okkar fundu taktinn í vörninni áttu Fylkisstelpurnar engin svör. Þau fáu skot sem fóru í gegnum vörnina tók Sunna Pétursdóttir. KA/Þór átti fimm mörk í hálfleik og í seinni hálfleik jókst munurinn enn. Þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum hafði Fylkir einungis skorað tvö mörk í seinni hálfleik. Síðustu fimm mínúturnar slökuðu norðanstúlkur þó á klónni og Fylkir náði að klóra í bakkann. Virkilega þægilegur níu marka sigur staðreynd og ekki möguleiki að taka eina út og hrósa henni sérstaklega. Baráttan, fórnfýsin og leikgleðin sem stelpurnar sýndu þessa helgi var frábær og skóp þessa sterku sigra. Það vantaði fimm stelpur í þennan hóp en það kom ekki að sök, það stigu bara aðrar upp. Þannig á þetta að vera.

KA/Þór2 spilaði á sama tíma gegn Aftureldingu í Mosfellsbænum. Fyrir leikinn var ljóst að þetta yrði þungur róður þar sem Afturelding er bara með eitt lið og því flokkast það sem einskonar A lið. Fyrri hálfleikurinn var beint framhald af leiknum deginum áður og voru stelpurnar sjálfum sér verstar lengst af. Seinni hálfleikurinn var þó mikið betri og sýndu stelpurnar sitt rétta andlit og skoruðu 8 mörk á meðan þær skoruðu bara tvö í hálfleiknum á undan. Þó endaði þetta með sigri Aftureldingar.
KA/Þór2 á bara eftir að bæta sig í vetur. Þær verða að muna að það er engin pressa á þeim og þær eiga ekki að þurfa að stressa sig fyrir leiki. Þær eiga að njóta þess að spila og spila með hjartanu. Þær hafa margoft sýnt það að þær geta vel spilað fínan handbolta þegar þær eru afslappaðar og ekki að svekkja sig á mistökum.

Síðasti leikur helgarinnar var svo KA/Þór1 gegn FH í 1. deildinni. Margar af yngra árinu höfðu spilað með eldra árinu líka og því komin heldur mikil þreyta fyrir þennan síðasta leik. Una Kara var draghölt eftir að hafa fengið hné í læri á báðar auk þess sem nebbinn var heldur bólginn eftir að hafa hlaupið á hendur daginn áður. Hinar í hópnum höfðu allar spilað með eldra árinu tvo leiki og því eðlileg þreyta hlaupin í þær auk þess sem Arnrún markmaður skellti sér á einn tennisolnboga í upphitun með eldra árinu. Hugsanlega eftir skot frá Ásdísi. Það er þó ekki staðfest.

Þrátt fyrir mikla þreytu og lemstraða skrokka spiluðu stelpurnar hinn ágætasta leik og unnu öruggan 11 marka sigur þar sem kappið bar fegurðina ofurliði á köflum.

Heilt yfir, virkilega góð helgi og verður spennandi að fylgjast með þessum stelpum í vetur. Þær þurfa þó að muna það að svona sigrar koma ekki af sjálfu sér, það þarf að vinna fyrir því með góðum æfingum og baráttu í leikjum.

Kv. Þjálfarar