Fín ferð suður hjá eldra ári 5. flokks kvenna

Stelpurnar á eldra ári í 5. flokki kvenna skelltu sér suður og tóku þátt í 2. Íslandsmóti vetrarins.

KA/Þór teflir fram tveimur liðum á eldra ári. KA/Þór 1 sem skipað er reyndari leikmönnum og KA/Þór2 sem skipað er leikmönnum sem hafa minni reynslu. 

KA/Þór1 er í 1. deild og er því í harðri baráttu á meðal þeirra bestu. Fyrsti leikurinn var gegn ríkjandi Íslandsmeisturum í þessum aldursflokk, Fram. Sem var einmitt eina liðið sem stelpurnar náðu aldrei að leggja af velli á síðustu leiktíð.
Það er skemmst frá því að segja að stelpurnar spiluðu frábærlega og unnu öruggan sex marka sigur. Vörn, sókn og markvarsla var í hæsta gæðaflokki og ljóst að stelpurnar ætluðu sér eitthvað á þessu móti. Það sýndu þær enn frekar í næsta leik gegn Gróttu þar sem þær unnu öruggan 11 marka sigur.

Laugardagurinn byrjaði þó ekki vel þar sem þær spiluðu virkilega illa gegn ÍBV og Haukum og töpuðust báðir leikirnir með minnsta mun eða einu marki. Munaði þar reyndar miklu að varnarsjeníið Helena Arnbjörg fékk þungt högg á andlitið gegn ÍBV og fékk skurð undir nefið og gat því ekki spilað það sem eftir var af mótinu, enda upptekin að láta tjasla sér saman á spítalanum.

Síðasti leikurinn var gegn HK og þá náðu stelpurnar að sýna aftur sitt rétta andlit og unnu þar öruggan sigur. HK stóð að lokum uppi sem sigurvegari á þessu móti, ÍBV í öðru sæti og KA/Þór í því þriðja.

Það er grátlegt að hugsa til þess að ef stelpurnar hefðu spilað ÍBV leikinn betur eða ekki misst unnin leik gegn Haukum niður í tap hefðu þær getað staðið uppi sem sigurvegarar. En svo fór sem fór.
Þegar búið er að benda á það neikvæða er rétt að benda á það jákvæða. Stelpurnar spiluðu frábærlega í þremur leikjum og komu til baka gegn HK eftir tvo mjög slaka leiki og sýndu þar með gríðarlegan karakter. Það er aldrei auðvelt að þurfa að kyngja því að maður hafi tapað leik á sínum eigin klaufaskap og það þarf virkilegan karakter til að rífa sig upp úr þeim öldudal. Stelpurnar eru komnar á þann stall að þær geta unnið öll lið með baráttuna að vopni. Þær eru hársbreidd frá því á þessu móti að næla sér í fyrsta sætið. Nú er bara að æfa vel og gera aftur harða atlögu að því á næsta móti.

KA/Þór2 hefði átt að spila í 4. deild á þessu móti eftir að hafa fallið um deild á síðasta móti. Þar sem ný lið bættust við spiluðu þær því aftur í 3. deildinni.

Fyrsti leikurinn var gegn Aftureldingu 1. Mjög sérstakt þegar lið 2 þarf að spila við lið 1 en það er önnur saga. Afturelding1 hefur á að skipa stórum og sterkum stelpum sem spiluðu framliggjandi vörn allan leikinn. Þetta réðu norðanstelpur engan veginn við. Fyrri hálfleikurinn var hreint út sagt hræðilegur. Stelpurnar virkuðu aftur komnar á byrjunarreit í handbolta. Gripu ekki boltann og þegar þær höfðu boltann sendu þær á leikmenn Aftureldingar. Þess á milli stóðu þær fast í hælana. Vel valin orð voru látin falla í hálfleik og mætti allt annað lið inn á völlinn. Lið UMFA var talsvert betra en lið KA/Þórs en í síðari hálfleik þá reyndu norðanstúlkur og börðust. Seinni hálfleikur var mun betri en sá fyrri en UMFA hélt áfram í framliggjandi vörn þrátt fyrir yfirburðarstöðu og reyndu að setja Íslandsmet í að sigra stórt. Nokkuð umdeilanleg ákvörðun þjálfara Aftureldingar að leggja sig fram við að niðurlægja andstæðinginn en KA/Þór stelpur fá prik í kladdann fyrir að berjast. Það er sama hversu góður andstæðingurinn er, þú getur alltaf barist. Lokastaðan var stórt tap KA/Þórs2 en engu að síður gátu þær gengið nokkuð stoltar af velli eftir síðari hálfleikinn.
Stelpurnar bættu sig leik frá leik og var allt annað að sjá þær í næstu leikjum. Þrátt fyrir að leikirnir hafi tapast eru fleiri og fleiri stelpur í þessu liði farnar að taka af skarið og láta að sér kveða. Sem er einmitt ástæðan fyrir því að þetta lið sé til staðar. Þannig að allir fái að spila, öðlist reynslu og taki ábyrgð.

Það er virkilega jákvætt að hægt var að sjá bætingu leik frá leik. Það vantar ennþá upp á leikskilning og áræðni en þessir hlutir koma hægt og bítandi með þessu áframhaldi. Nú er bara mikilvægt fyrir stelpurnar að æfa vel fram að næsta móti og taka þá bætingu sem þær sýndu á þessu móti inn á það næsta. Svo lengi sem fleiri lið skrái sig ekki til leiks er líklegt að stelpurnar fái loksins í vetur að kljást við mótherja sem er á svipuðu reki og þær í getu á næsta móti.

Helgin var því virkilega jákvæð. Bæði lið sýndu vilja til að gera vel og standa sig. Lengst af var barist á fullu og ekki hægt að biðja um mikið meira.

Utan handboltavallarins voru stelpurnar félaginu, foreldrum og ekki síst þjálfurum til sóma. Er nokkuð hægt að búast við öðru af þessum hóp?

Kv. Þjálfarar