Fyrsti leikurinn okkar var klukkan 8. Ein af okkar reyndustu stelpum, Hulda Björg Hannesdóttir fárveiktist í ferðinni og gat því ekkert spilað
með okkur. Það voru auðvitað vondar fréttir fyrir liðið og við spiluðum allt mótið á aðeins sex leikmönnum.
Fyrstu andstæðingar okkar voru ÍR1. Stelpurnar voru augljóslega ekki alveg nógu vaknaðar og ÍR stelpur náðu strax góðu forskoti.
Þær héldu því síðan allan leikinn og leikurinn endaði með frekar stórum sigri ÍR stelpnanna. Seinna á mótinu kom
síðan í ljós að þær voru einfaldlega langbesta liðið í þessari deild vegna þess að þær unnu alla sína leiki
mjög sannfærandi. Stelpurnar voru allt annað en sáttar með úrslitin í þessum leik og voru ákveðnar í að standa sig betur í
hinum leikjunum. Það gerðu þær heldur betur og sigruðu alla þrjá leikina sem eftir voru. Þeir leikir voru á móti Haukum2, Víkingi
og Fjölni2.
Alla leikina stóð Heiðbjört Anna Guðmundsdóttir í markinu og stóð sig glæsilega. Það voru ófáir boltarnir sem
hún einfaldlega greip og hún átti mjög stóran þátt í þessum sigrum. Markamaskínan Ólöf Marín Hlynsdóttir
stóð sig vel í sókninni og skoraði hátt í 30 mörk á mótinu. Markmenn liðanna komu engum vörnum við og hún
nýtti sér það vel. Það var síðan systir hennar, Nana Rut Hlynsdóttir sem kom með okkur til þess að við næðum í
lið. Nana Rut er aðeins 8 ára gömul og var að spila á sínu fyrsta móti. Þrátt fyrir það stóð hún sig
frábærlega bæði í vörn og sókn þótt að sumir andstæðingar hennar hafi nánast verið tvöfalt stærri en
hún.
Svala Björk Svavarsdóttir spilaði í vinstri skyttunni og stóð sig líka mjög vel. Hún var mjög hörð í vörninni og oftar
en ekki hættu stelpurnar að þora að sækja á hana. Síðastar en alls ekki sístar voru það vinkonurnar Emma og Karólína
úr 7. flokki sem einnig stóðu sig mjög vel. Þetta var þeirra fyrsta handboltamót en það var ekki að sjá á þeim
því að þær spiluðu vel og voru ákveðnar í að standa sig, sem þær gerðu.
Þegar að sóknin gekk illa var það vörnin og markvarslan sem hélt okkur inni í leikjunum. Í öllum leikjunum var vörnin
góð og stelpurnar óhræddar við að láta finna fyrir sér. Stelpurnar enduðu í 2. sæti í deildinni sem er mjög góður
árangur. Síðasta mótið verður eftir tæpan mánuð og þá er stefnan sett á 1. sætið.
Eftir síðasta leikinn fóru stelpurnar í sturtu og síðan fórum við að ganga frá þar sem við gistum. Síðan kom
rútan að sækja okkur og við fórum að sækja ferðafélaga okkar, sem að þessu sinni voru 5. flokkur kvenna. Eftir það var farið
á KFC í Mosfellsbænum og þar fengu stelpurnar að velja hvað þær vildu fá að borða. Við borðuðum og keyrðum
síðan í Staðarskála. Þar fengu stelpurnar vasapening og keyptu sér nammi sem var vel séð. Síðan keyrðum við áfram og
vorum komin heim um klukkan hálf 10.
Eins og stendur hér að ofan stóðu allar stelpurnar sig mjög vel og spiluðu vel saman. Það er stutt í næsta mót og við munum nota
tíman vel til þess að fara í það sem uppá vantaði á þessu móti.
Við þjálfarar þökkum stelpunum og farastjórunum fyrir góða ferð og hlökkum til næstu ferðar!
Kolbrún Gígja Einarsdóttir og Heimir Sigurðsson