Síðastliðinn föstudag, þann 14. janúar héldum við til Reykjavíkur. Við hittumst uppi í KA heimili, horfðum saman á landsleikinn og lögðum síðan af stað. Við keyrðum með tveimur strákaliðum þannig að það var vægast sagt mikið fjör á leiðinni. Það var síðan stoppað í Staðarskála til þess að borða og þar fengum við hollan og góðan mat, sem að stelpunum fannst þó misgóður. Ferðinni var síðan haldið áfram og við vorum komin á gististaðinn okkar, Ársel, rétt fyrir miðnætti. Þegar þangað var komið fóru stelpurnar að taka sig til fyrir svefninn, enda langur og erfiður dagur framundan.
Stelpurnar voru dregnar á fætur klukkan 9 á laugardeginum og fóru að taka sig til fyrir daginn. Farastjórarnir voru síðan sendir út í búð vegna smá misskilnings með morgunmatinn. Þær komu til baka með troðfulla poka af mat við mikinn fögnuð stelpnanna sem voru orðnar heldur svangar. Eftir morgunmatinn gengum við síðan í Fylkisheimilið, þar sem mótið var haldið. Stelpurnar tóku sig til og byrjuðu að hita upp.
Fyrsti leikurinn var gegn Fjölni. Fjölnir var sennilega sterkasta liðið í riðlinum fyrir utan okkur þannig að þetta byrjaði mjög jafnt. Í hálfleik var staðan 4-4 og stelpurnar ákveðnar að tapa þessum leik ekki. Þær sýndu heldur betur úr hverju þær eru gerðar og héldu hreinu í seinni hálfleik með frábærri vörn og markvörslu. Leikurinn fór 7-4, flottur leikur hjá stelpunum.
Næstu tveir leikir voru gegn FH2 og HK3. Þeir leikir spiluðust mjög svipað þar sem við unnum báða með 3-4 mörkum. Við hefðum getað unnið þessa leiki mun stærra en stelpurnar voru mikið að skjóta beint á markmennina, annars voru þær góðar.
Næstsíðasti leikur stelpnanna átti að vera á móti Víking. Þær voru að hita upp þegar okkur var sagt að Víkingur hefði skráð sig úr keppninni. KA vann því 10-0 og var því fagnað vel og mikið. Stelpurnar áttu því bara einn leik eftir, og sá leikur var gegn ÍR2. Þær mættu ákveðnar til leiks, enda var mótsstjórinn nýbúinn að segja þeim að ef þær ynnu þennan leik þá væri verðlaunaafhendingin strax eftir leik. Það var því pínu stress og spenningur fyrir leiknum og staðan var jöfn 1-1 eftir 2 mínútur. En lengra komust ÍR-ingarnir ekki í þetta skiptið því að KA stelpurnar gjörsamlega völtuðu yfir þær og unnu 12-1. Stelpurnar voru auðvitað ánægðar með sig og fögnuðu þessu vel. Við fórum síðan upp í verðlaunaafhendingu og myndatöku og síðan var farið beint í sigursturtu.
Við biðum síðan eftir strákunum og keyrðum af stað heim. Það var stoppað í Borgarnesi og skellt í sig hamborgara og frönskum og síðan fengu stelpurnar vasapening sem var vel þegið. Við keyrðum síðan áfram heim og allar stelpurnar steinsofnuðu enda dauðþreyttar eftir daginn.
Stelpurnar voru mjög góðar á þessu móti og sýndu hvað þær geta. Það er ekki hægt að taka neina eina út vegna þess að þær voru allar virkilega góðar. Vörnin var mjög góð og þær spiluðu hana sem lið, ef að ein missti mann framhjá sér var næsta mætt í hjálpina og svo framvegis. Við fengum því fá mörk á okkur og þau skot sem að fóru framhjá vörninni voru langflest varin af markmanninum okkar.
Ég ætla að þakka stelpunum fyrir frábært mót, þær stóðu sig eins og hetjur og eiga bara eftir að bæta sig meira á næstu vikum. Það má síðan ekki gleyma fararstjórunum sem komu með okkur og stóðu sig með stakri prýði!
Kolbrún Gígja Einarsdóttir