Föstudaginn 21. janúar héldu 19 eldhressar KA/Þór stelpur til Reykjavíkur. Lagt var af stað frá KA heimilinu klukkan 13 og var stoppað og borðað í Borgarnesi. Við vorum komin í Fjölnisheimilið, þar sem mótið var haldið, um klukkan 18:30.
Í þetta sinn vorum við með tvö lið og stefnum að því að verða jafnvel með þrjú lið á næsta móti ef að stelpunum heldur áfram að fjölga svona mikið. Hópurinn hefur heldur betur stækkað síðan í haust og við viljum koma á framfæri að allar stelpur sem vilja koma og prófa handbolta eru meira en velkomnar á æfingar.
KA/Þór1 átti fyrsta leik klukkan 19 á föstudagskvöldið þannig að það var frekar tæpt og pínu stress þegar stelpurnar mættu á svæðið. Þær voru fljótar að klæða sig og byrja að hita upp og fyrsti leikurinn var gegn Selfoss1. Stelpurnar voru ákveðnar frá fyrstu mínútu og staðan í hálfleik var 6 – 3 okkur í vil. Stelpurnar bættu síðan við, kláruðu leikinn af fullum krafti og unnu 12 – 5. Næsti leikur var strax klukkan 20 þannig að það var lítil pása á milli. Næstu andstæðingar okkar voru Fylkir. Liðin voru mjög jöfn að getu, og með frábærri vörn og markvörslu hjá báðum liðum var staðan aðeins 2 – 0 í hálfleik KA/Þór stelpum í vil. Seinni hálfleikur spilaðist eins og sá fyrri, mjög lítið af mörkum og markmenn beggja liða í aðalhlutverki. Leikurinn endaði með eins marks sigri KA/Þór, aðeins 4 – 3.
Stelpurnar í KA/Þór2 spiluðu ekkert á föstudaginn en fylgdust bara með hinu liðinu spila. Um kvöldið var bara slakað á og leikið sér í handbolta áður en stelpurnar steinsofnuðu. Fyrsti leikur á laugardeginum var ekki fyrr en klukkan 14 þannig að við vöknuðum klukkan 9 og fengum okkur morgunmat, gengum frá og skruppum síðan í göngutúr um Grafarvoginn. Eftir það fóru nokkrar stelpur í sund á meðan aðrar horfðu á leiki sem voru í gangi.
Síðan klukkan 14 byrjuðu leikirnir. Stelpurnar áttu sex næstu leiki, KA/Þór1 og KA/Þór2 til skiptis, þrjá leiki hvor.
KA/Þór1 spilaði við Víking og leikurinn var í járnum allan tíman og endaði 7 – 4 fyrir okkar stelpum. Næsti leikur var gegn sterku liði Stjörnunar sem hafði, eins og KA/Þór liðið, unnið alla sína leiki hingað til. Það var því um hálfgerðan úrslitaleik að ræða og stelpurnar tilbúnar að leggja sig allar fram. Stelpurnar spiluðu mjög vel í leiknum en það dugði því miður ekki og leikurinn endaði með sigri Stjörnunar. Síðasti leikur stelpnanna var gegn ÍBV. Stelpurnar byrjuðu ekki vel og voru þremur mörkum undir í hálfleik. Stelpurnar voru ákveðnar að tapa ekki og snéru leiknum heldur betur við, spiluðu allar sem ein frábærlega og tveggja marka sigur staðreynd, 11 – 9. Stelpurnar enduðu í 2. sæti í riðlinum sínum sem er mjög góður árangur. Vörn og markvarsla er klárlega lykillinn að velgengni hjá þessu liði og stelpurnar stóðu sig allar mjög vel.
KA/Þór2 spiluðu þrjá leiki á mótinu og var fyrsti leikurinn á móti ÍBV2. Stelpurnar spiluðu mjög vel og með frábærri markvörslu lönduðu stelpurnar góðum sigri. Næsti leikur var gegn Haukum2 og sá leikur spilaðist eins og sá fyrsti og endaði 7 – 4, KA/Þór stelpum í vil. Þá var aðeins einn leikur eftir og hann var á móti Gróttu2. Stelpurnar voru orðnar þreyttar og spiluðu ekki eins vel og í hinum leikjunum. Tap var því staðreynd og 2. sætið okkar. Stelpurnar í þessu liði voru margar að keppa á sínu fyrsta móti og stóðu sig mjög vel. Markaskorunin dreyfðist reyndar ekki mikið en allar spiluðu þær þó góða vörn og markvarslan var frábær.
Eftir síðasta leikinn var farið í snögga sturtu og keyrt af stað. Við stoppuðum í Borgarnesi, borðuðum og náðum seinni hálfleik af landsleiknum. Síðan var ferðinni haldið áfram og við vorum komin heim um klukkan 11.
Við þjálfararnir þökkum stelpunum sem og farastjóranum fyrir frábæra ferð!
Kolbrún Gígja Einarsdóttir og Heimir Sigurðsson