Sigurganga KA/Þór í Grill 66 deildinni heldur áfram þessa dagana en á laugardaginn tóku stelpurnar á móti Ungmennaliði Fram. Tónninn var gefinn strax í upphafi leiks en KA/Þór skoraði fyrstu átta mörk leiksins en það tók Fram tólf og hálfa mínútu að komast á blað. Um miðjan fyrri hálfleikinn var staðan orðin 10-1 en þá tóku Fram stelpurnar kipp og skoruðu þrjú mörk í röð. Heimakonur spýttu þá í að nýju og sýndu yfirburði sína, mestur varð munurinn ellefu mörk í fyrri hálfleik 17-6 en hálfleiksstaðan var 18-8.
Eins og tölurnar bera með sér þá var nokkuð ljóst í hvað stefndi, og fengu flestir reynsluboltar KA/Þór að hvíla framanaf seinni hálfleik. Fyrstu fimmtán mínútur hálfleiksins var jafnræði í markaskorun liðanna, KA/Þór skoraði 9 mörk á móti 8 mörkum gestanna. Þá var gefið hraustlega í að nýju og forskotið jókst stöðugt og endaði leikurinn með öruggum tuttugu marka sigri, 39-19 fyrir KA/Þór.
Það er í rauninni ekki mikið um leikinn að segja, yfirburðirnir svo algjörir á öllum sviðum leiksins og allar sem komu inná stóðu sig með ágætum. Í leikslok var Ásdís Guðmundsdóttir valinn leikmaður KA/Þór liðsins.
Mörk KA/Þór: Katrín Vilhjálmsdóttir 7, Ásdís Guðmundsdóttir 6, Martha Hermannsdóttir 6, Steinunn Guðjónsdóttir 6, Ásdís Sigurðardóttir 3, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 3, Ólöf Marín Hlynsdóttir 3, Aldís Ásta Heimisdóttir 2, Auður Brynja Sölvadóttir 2 og Þóra Björk Stefánsdóttir 1 mark.
Guðrún Sunna Pétursdóttir varði 16 skot (1 víti) og Margrét Einarsdóttir 10 skot.
Mörk Fram U: Guðlaug Einarsdóttir 5, Hallfríður Jónína Arnarsdóttir 5, María Héðinsdóttir 4, Harpa María Friðgeirsdóttir 2, Birta Birgisdóttir 1, Lena Margrét Valdimarsdóttir 1 og Svala Júlía Gunnarsdóttir 1 mark.
Nokkur tölfræðiatriði úr leiknum
Næsta verkefni KA/Þór verður örugglega meira krefjandi en á þriðjudaginn, klukkan 19:00 mæta þær Olís-deildarliði Fjölnis í 8-liða úrslitum Coca-Cola bikarsins. Við hvetjum alla stuðningsmenn til að fjölmenna í KA heimilið á þriðjudaginn og hvetja stelpurnar í bikarbaráttunni.