Eldra ár 4. flokks kvenna í bikarúrslit annað árið í röð!

Stelpurnar á eldra ári 4. flokks kvenna mættu Stjörnunni í Garðabæ í gær í undanúrslitum bikars. Leikurinn átti upphaflega að vera á miðvikudaginn en þar sem Ingó veðurguð var ekki alveg á okkar bandi varðandi miðvikudaginn var leiknum flýtt um einn dag.

Leikurinn byrjaði nokkuð brösuglega og náðu Stjörnustelpur að komast í 3-0 áður en KA/Þór áttaði sig á því að leikurinn væri byrjaður. Mikið stress var í stelpunum en þrátt fyrir það náðu þær að klóra sig inn í leikinn aftur og jafna og komast yfir. Fyrri hálfleikurinn var í járnum en allmargir tæknifeilar sökum æðibunugangs norðanstúlkna gerðu þeim erfitt að slíta sprækt lið Stjörnunnar frá sér. Stjarnan náði að jafna rétt fyrir hálfleik, staðan 11-11 í hálfleik.

Hálfleikurinn fór í að róa taugarnar og átta sig á því að einungis er hægt að skora eitt mark í einu í handbolta.

Sú stefnubreyting hjá stelpunum skilaði sér í frábærum seinni hálfleik. Vörnin lokaðist, Arnrún datt í gang fyrir aftan og sóknin lék við hvern sinn fingur. Mest náðu stelpurnar 10 marka forystu í seinni hálfleik og lokatölur 20-28.

Erfitt er að taka einhverja út eftir svona leik. Sóknin gekk vissulega brösuglega í fyrri hálfleik en kannski ekki skrítið miðað við hversu þandar taugarnar virtust vera hjá nokkrum stúlkum. Hins vegar í seinni hálfleik var hver einasta með á nótunum, boltinn gekk virkilega vel manna á milli og réttir sénsar voru iðulega teknir. Þegar stelpurnar spila með kollinn rétt skrúfaðan á er hreint út sagt ömurlegt að spila gegn þeim. Klókindin í einu liði miðað við aldur eru hreint út sagt ótrúleg. Hver einasta í liðinu getur tekið af skarið þegar á reynir og það er kostur sem erfitt er að vinna gegn.

Á sunnudaginn spila stelpurnar því gegn liði Fylkis klukkan 13:00 í bikarúrslitum. Það eitt að ná í höllina tvö ár í röð er afrek út af fyrir sig en þær vilja meira. Því er um að gera ef KA menn eða Þórsarar nú eða KA/Þórs-arar? eru á ferð um höfuðborgarsvæðið á sunnudaginn er ekki úr vegi að mæta og garga eins og einn bikar norður á sunnudaginn.

Ef þær spila með hjartanu og hausnum þá á ekkert lið séns í þær, þetta er ekki flóknara en það.