Eldra ár 4. flokks kvenna einnig komnar í bikarúrslit!

 

Stelpurnar á eldra ári 4. flokks kvenna hjá KA/Þór fengu HK í heimsókn á miðvikudaginn í undanúrslitum Coca Cola bikarkeppninnar. Þórir Tryggvason var á staðnum og tók myndir á leiknum.
Mikill taugatitringur var í báðum liðum og bar markaskorunin þess merki en staðan eftir 9 mínútna leik var 0-1 HK í vil. Markmaður HK var þá búin að verja 5 bolta en Sunna Guðrún í marki KA/Þór 3. Út hálfleikinn skiptust liðin svo á að skora en það var HK sem fór með tveggja marka forystu inn í hálfleik eftir klaufalega síðustu mínútu heimastúlkna.

Hálfleiksræðan var ekki flókin, gekk út á það að byrja bara að spila handbolta, hætta þessu rugli og óhætt er að segja að stelpurnar hafi svarað kallinu. Vissulega skoruðu HK stelpur fyrsta mark hálfleiksins og juku muninn í 8-5 en eftir það var annað lið frá Akureyri að spila. Vörnin vægast sagt lokaðist og hraðaupphlaupsmörk og önnur mörk kíktu í heimsókn. Að lokum landaði KA/Þór glæsilegum 16-13 sigri og mikið fagnað í leikslok enda nú ljóst að bæði lið 4. flokks kvenna eru komin á stóra sviðið, í bikarúrslit.

Vörn og markvarsla unnu þennan leik, á því leikur enginn vafi. Þóra Stefánsdóttir sýndi enn og aftur landsliðstakta í vörninni og Kristín Helga og Aldís Heimisdóttir stýrðu vörninni af stakri snilld og Þórunn Ess hélt skyttunni sinni alveg niðri í leiknum. Sóknarlega var Þórunn Sigurbjörnsdóttir svo kapítuli út af fyrir sig. Byrjaði leikinn illa og var fyrri hálfleikurinn hjá henni eiginlega frekar slappur miðað við hennar getu. Í seinni hálfleik sýndi hún gífurlegan karakter með því að koma ákveðin inn aftur og endaði hún á því að skora 11 mörk úr öllum tegundum skota, þar af þrjú síðustu mörk KA/Þórs sem tryggðu sigurinn. Næst á eftir henni kom svo Kolbrún María með þrjú mörk en hún nýtti þau fáu færi sem hún fékk í horninu ákaflega vel í dag. Sunna Pétursdóttir átti síðan stórleik í markinu og var eina sem spilaði af eðlilegri getu í fyrri hálfleik og bætti síðan enn frekar í í þeim seinni.

 

Það er síðan ekki hægt að sleppa því að minnast á þá gífurlega góðu stemmingu sem var í húsinu allan leikinn en foreldrar og aðrir áhorfendur fóru hreinlega á kostum.

Stelpurnar eiga því gríðarlega skemmtilegt verkefni fyrir höndum á sunnudaginn í Laugardalshöllinni þegar bæði liðin spila um bikarmeistaratitilinn.

99 Árgangurinn á leik við ÍBV klukkan 10:00 á sunnudagsmorgni og seinna sama dag, eða klukkan 13:00 eiga 98 stelpurnar svo leik við Fram.

Foreldrar og aðrir velunnarar eru því hvattir til að gera sér ferð til Reykjavíkur um helgina og fylgja stelpunum í gegnum þetta ævintýri sem bíður þeirra og hvetja bikardolluna heim til sín til Akureyrar.

Skoða myndasyrpu Þóris Tryggvasonar frá leiknum.