Haukar sóttu tvö stig norður í gær er liðið sigraði KA/Þór með eins marks mun í KA-heimilinu í N1-deild kvenna í
handknattleik. Lokatölur urðu 28-29 en lokamínúturnar voru æsispennandi þar sem heimamenn hefðu getað jafnað metin í síðustu
sókn leiksins. Sú sókn rann hins vegar út í sandinn og Haukastúlkur fögnuðu vel í leikslok.
Það er blaðamaður Vikudags,
Þröstur Ernir Viðarsson sem á heiðurinn af þessari umfjöllun.
Leikurinn í KA-heimilinu var hnífjafn fyrsta korterið þar sem aldrei munaði meira en einu marki á liðunum. Haukar voru þó alltaf á undan
að skora og náðu þriggja marka forystu eftir um 20 mínútna leik, 10-7, og var munurinn orðinn sex mörk, 16-10, skömmu síðar.
Góður leikkafli hjá Haukastúlkum en heimamenn skutu ítrekað í tréverkið og gátu þakkað hinni færeysku Fridu Petersen
að munurinn í hálfleik væri ekki meiri en fjögur mörk, 12-16, en Frida varði 15 skot í fyrri hálfleik.
Haukar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og náðu fimm marka forystu á ný, 18-12, en þá kom góður leikkafli hjá
KA/Þór sem minnkaði muninn í tvö mörk, 17-19, og niður í eitt mark, 19-20. Þá tóku Haukastúlkur við sér og juku
muninn í fjögur mörk, 23-19. Norðanstúlkur héldu í við Hauka sem gekk erfiðlega að hrista þær af sér og heimamenn
náðu muninum niður í eitt mark, 25-24, þegar átta mínútur lifðu leiks og allt opið. Haukar náðu hins vegar að galopna
KA/Þórs vörnina trekk í trekk og höfðu mun minna fyrir sínum mörkum og voru alltaf skrefinu á undan.
KA/Þór minnkaði muninn í eitt mark, 26-27, þegar fjórar mínútur voru til leiksloka en virtist fyrirmunað að jafna. Þegar 30
sekúndur voru eftir var munurinn ennþá eitt mark, 28-29, Haukum í vil sem lögðu af stað í sókn. Gestirnir klúðruðu hins vegar
boltanum og heimastúlkur freistuðu þess að jafna metin. Sókn þeirra rann út í sandinn og lokatölur, 28-29. Tvö mikilvæg stig í
hús hjá Haukum sem fara upp í fjögur stig en KA/Þór hefur áfram tvö stig.
Mörk KA/Þórs: Ásdís Sigurðardóttir 8 (6), Martha Hermannsdóttir 6, Kolbrún Gígja
Einarsdóttir 5, Katrín Vilhjálmsdóttir 4, Erla Tryggvadóttir 2, Guðrún Tryggvadóttir 2, Jóhanna Snædal 1.
Varin skot: Frida Petersen 21.
Mörk Hauka: Karen Helga Sigurjónsdóttir 8 (4), Marja Gedriot 8, Silja Ísberg 5, Gunnhildur Pétursdóttir 3 (1), Erla
Eiríksdóttir 2, Viktoría Valdimarssdóttir 1, Ragnheiður Sveinsdóttir 1
Varin skot: Sólveig Ásmundsdóttir 7, Rakel Jónsdóttir 1.
Sjá leikskýrslu leiksins.
Sjá fleiri myndir Þóris Tryggvasonar frá leiknum.