U17 ára landslið Íslands í handbolta lék í dag lokaleik sinn á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar þegar liðið mætti Ungverjum í leik um 7. sætið. Strákarnir byrjuðu leikinn ekki nægilega vel og Ungverjar leiddu 11-17 í hálfleik. Íslenska liðið kom sér inn í leikinn í þeim síðari en náði aldrei að jafna og Ungverjar unnu að lokum 24-29. Okkar maður Dagur Gautason lék minna í leiknum en undanförnum leikjum og gerði 1 mark.
En í gær lék liðið gegn Dönum en rétt eins og í dag byrjaði liðið ekki nægilega vel og var staðan 11-17 í hálfleik. Þegar kortér lifði leiks voru strákarnir hinsvegar búnir að snúa leiknum sér í vil og náðu forystunni 21-20. Danir voru hinsvegar sterkari á lokasprettinum og unnu 26-29. Dagur var markahæstur í leiknum og gerði 9 mörk.
Svekkjandi að liðið skyldi ekki enda ofar á mótinu eftir góða frammistöðu en það er ljóst að það býr mikið í liðinu og virkilega jákvætt fyrir okkur KA menn að sjá hve öflugur Dagur var á mótinu, þarna er á ferðinni gríðarlegt efni.