Dagur í úrvalsliði EM - Ísland í 4. sæti

Handbolti

Dagur Árni Heimisson var í dag valinn í úrvalslið Evrópumeistaramótsins í handbolta skipað leikmönnum 18 ára og yngri. Dagur fór á kostum með íslenska liðinu sem endaði í 4. sæti mótsins en strákarnir voru sorglega nálægt því að tryggja brons í lokaleik mótsins.

KA átti þrjá fulltrúa í hópnum en það eru auk Dags Árna þeir Jens Bragi Bergþórsson og Magnús Dagur Jónatansson. Íslenska liðið mætti því ungverska í bronsleik mótsins í dag en strákarnir okkar leiddu lungan af leiknum og voru í góðri stöðu, 25-21, er Dagur Árni fékk beint rautt spjald. Ungverjum tókst að jafna metin á lokasekúndunni og knúðu þar með fram framlengingu.

Þar reyndust þeir sterkari og unnu að lokum 34-36 sigur. Jens Bragi gerði 6 mörk í leiknum og Dagur Árni 4 mörk.

Eins og áður segir átti Dagur frábært mót og var valinn í úrvalslið mótsins sem miðja en þetta er annað árið í röð sem hann er valinn í úrvalslið á stórmóti en hann var valinn í úrvalslið Opna Evrópumótsins hjá U17 árið 2023.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is