Nú rétt í þessu var að ljúka úrslitaleik Íslands og Þýskalands á Sparkassen Cup þar sem U-18 landslið karla spila. Í riðlakeppninni spilaði Ísland fyrst gegn Saar og vann þar góðan sjö marka sigur, 31-24. Næsti leikur var gegn Pólverjum þar sem Ísland vann einnig með sjö mörkum. Í lokaleik riðlakeppninnar vannst síðan sex marka sigur á Hollandi og liðið þar með komið í undanúrslit.
Þar mættu strákarnir Ítölum og unnu þar magnaðan 16 marka sigur, 33-17 og þar með komnir í úrslitaleikinn sem var gegn heimamönnum í Þýskalandi.
Úrslitaleikurinn var æsispennandi, Ísland komst þrem mörkum yfir í fyrri hálfleik, 8-5 en Þjóðverjar jöfnuðu og leiddu með einu marki í hálfleik, 10-11.
Þjóðverjar komust þrem mörkum yfir í upphafi seinni hálfleiksins, 12-15 en Ísland jafnaði í 15-15 og komst skömmu síðar yfir, 18-17 og síðar 20-17.
Lokakaflinn var dramatískur, Þjóðverjar minnkuðu muninn í 20-19, Ísland missti tvo menn af velli þegar ein og hálf mínúta var eftir, Dagur Gautason kom Íslandi í 21-19, klúðraði síðan víti, Þjóðverjar minnkuðu muninn í 21-20 og unnu í kjölfarið boltann og fengu vítakast sem þeir klúðruðu sömuleiðis og niðurstaðan því eins marks íslenskur sigur, 21-20 og þar með gullverðlaunin á Sparkassen Cup í húsi.
Dagur Gautason var markahæstur Íslendinga í leiknum með 8 mörk, þar af tvö úr vítaköstum. Dagur og Haukur Þrastarson voru heldur betur drjúgir fyrir Ísland í mótinu, Dagur skoraði alls 32 mörk og Haukur 31 mark. Við óskum Degi og öllu liðinu til hamingju með frábæran árangur.
Dagur brosmildur eftir sigur á Sparkassen Cup