Dagur Gauta til liðs við ØIF Arendal

Handbolti

Dagur Gautason hefur skrifað undir samning við norska liðið ØIF Arendal. Þetta er gríðarlega spennandi skref hjá okkar manni og óskum við honum góðs gengis í norsku úrvalsdeildinni!

Dagur sem er uppalinn hjá KA tók sín fyrstu skref í meistaraflokki tímabilið 2017-2018 er KA hóf aftur að leika undir eigin merki. Hann var strax í lykilhlutverki í liðinu sem tryggði sér sæti í deild þeirra bestu og gerði Dagur meðal annars ógleymanlegt sigurmark í fyrsta leik tímabilsins fyrir troðfullu KA-Heimili á lokasekúndu leiksins.

Hann hefur alla tíð leikið með KA liðinu er frá eru talin tvö tímabil með Stjörnunni. Á nýliðnum vetri var Dagur einn markahæsti leikmaður Olísdeildarinnar en hann gerði fimm mörk að meðaltali í leik og var valinn í lið ársins hjá HBStatz sem sér um tölfræði deildarinnar.

Lið Arendal er frá samnefndum bæ í suður Noregi og hefur undanfarin ár verið eitt besta lið landsins. Það eru því afar spennandi tímar framundan hjá Degi en Hafþór Vignisson leikur einnig með liðinu en hann er einnig frá Akureyri og léku þeir saman hjá Stjörnunni.

Við óskum Degi innilega til hamingju með samninginn og óskum honum góðs gengis á þessu næsta skrefi á hans ferli.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is